Húnavaka - 01.05.1984, Síða 69
HUNAVAKA
67
gnægð góðs matar. Á eftir hallaði Eiríkur sér aftur á bak í stólnum
ánægður á svip og sagði:
„Þetta var dýrðleg máltíð Gréta.“
,Já einum of góð fyrir línurnar. En hér úti í sveitinni er sennilega
ekki hugsað mikið út í það,“ sagði Helga og horfði glottandi á mig.
„Þér finnst ég eflaust orðin sveitaleg,“ sagði ég.
„Ég vil hafa hana svona, því fyrir mitt leyti vil ég ekki hafa konur of
grannar,“ sagði Róbert.
Helga, grönn eins og ösp, leit á hann augum þess sem finnst sér
greinilega misboðið og úr svip hennar mátti lesa „sveitadurgur“.
„Gréta er alltaf Gréta,“ sagði Eiríkur innilega og brosti svo mér
hlýnaði um hjartarætur.
Við drukkum kaffið út við stóra stofugluggann, þaðan sem er svo
fallegt útsýni yfir garðinn og ræktarlegu blómin mín sem ég er svo stolt
af.
„Hvernig tekst þér að hafa blómin svona falleg?“ spurði Eiríkur.
„Ég hef mínar aðferðir, tíni fræin, þurrka þau og sái þeim aftur.“
„Hamingjan góða, hvílík hagsýni,“ sagði Helga.
„Náttúran öll er full af hagsýni,“ sagði Eiríkur.
Eg snéri mér að honum og sagði: „Viltu sjá nýfætt folald?“
Við stóðum hlið við hlið, hölluðum okkur fram á hliðgrind og
virtum fyrir okkur háfætt folaldið, sem var að sjúga mömmu sína.
„En hvað þetta er eðlilegt og náttúrulegt,“ sagði Eiríkur.
Ég hafði tekið eftir þreytudráttum í andliti hans er við sátum inni.
Nú virtist hann afslappaður og það gladdi mig. Hann lagði hönd sína
hlýlega á mína og mælti:
„Segðu mér hreinskilnislega Gréta, hvernig líður þér?“
„O, ég bjarga mér,“ svaraði ég.
„Það hefurðu alltaf gert, og veistu, ég held að Helga öfundi þig.“
„Öfundi mig?“ sagði ég hissa.
Hann hló. „Þú ert alltaf svo róleg, ekki auðvelt að setja þig út af
sporinu. Það er yfir þér einhver innri ró og . . . fegurð.“ Hann strauk
mér um vangann.
Ég gat ekkert sagt og augu mín fylltust tárum.
„Ert þú sjálfur hamingjusamur?“ spurði ég loks.
„Hamingja er svo undarlegt hugtak Gréta, það er ekki það sama og
ást, og þetta tvennt þarf ekki endilega að fylgjast að. Þú ættir að vera