Húnavaka - 01.05.1984, Page 85
HUNAVAKA
83
Próventufólk dvaldist í klaustrunum, en það hafa trúlega verið
forréttindi hinna efnameiri, því að menn hafa orðið að leggja með sér
ærið próventufé.
Erfitt er að gera sér grein fyrir hve mikil samskipti munkarnir hafa
haft við fólk utan klausturs. Þó sýnast þau hafa verið nokkur. Lárent-
síusi er sagt til hróss að „Eigi var hann úti reikandi, því at hann gekk
aldri út af sínu klaustri, utan hann væri boðinn af sínum formanni ok
fyrir stórar nauðsynjar.“ (Bisk. III, bls. 75). Annaðhvort hafa munk-
arnir sjálfir annast dagleg störf, sem er ekki trúlegt, eða á Þingeyrum
hefur verið vinnufólk og er það trúlegra, a.m.k. var séra Hafliði
Steinsson á Breiðabólstað ráðsmaður þar um skeið.
Margir ábótanna tóku þátt í veraldlegum viðburðum samtiðar
sinnar jafnt og andlegum. Þeir tóku þátt í herferðum og stóðu í
jarðakaupum, jarðaskiptum og öðrum „útréttingum“ fyrir klaustrið.
Einnig reyndu þeir oft að stilla til friðar, svo sem Helgi ábóti á
Þingeyrum er hann gekk á milli Jóns Arasonar og Teits ríka í
Glaumbæ með fjölmenni og stöðvaði þannig Sveinsstaðabardaga.
(Skarðsárannáll, bls. 86). Voldug klaustur eins og Þingeyraklaustur
hafa trúlega komið í veg fyrir öflugt höfðingjavald. Klaustrin voru
fengsæl á fé og fasteignir. Hafliði Másson á Breiðabólstað var einn
helsti höfðingi landsins í upphafi 12. aldar. Eftir að Þingeyraklaustur
reis fara engar sögur af stórhöfðingjum í héraðinu á goðaveldisöld.
(Sbr. Bj. Þorst. 1978, bls. 127). Klaustrin áttu miklar jarðeignir og
leigðu þær.
Þingeyraklaustur hefur verið ærið sjálfstæð stofnun. Stóðu munkar
og ábótar þar uppi i hárinu á Hólabiskupum þegar svo bar undir.
Gunnlaugur munkur lét syngja messur í banni Guðmundar Ara-
sonar biskups. Guðmundur ábóti (vígður 1309 eða ’ 10) lenti í snörpum
deilum við Auðunn rauða Hólabiskup út af biskupstíundum þeim milli
Vatnsdalsár og Hrútafjarðar er Jón biskup Ögmundarson hafði gefið
klaustrinu. Er Auðunn biskup vísiteraði um vestursveitir byrgðu
bræður honum klaustrið og enga „processio“ gerðu þeir á móti hon-
um. Matur var honum og hans mönnum til reiðu en eigi öl. (Bisk. III,
bls. 76-77). Var margt bænda komið ofan úr Vatnsdal til að verja
klaustrið ef með þyrfti. Sýnir það að bændur hafa staðið vörð um
klaustrið og virt það.
í Lárentsíusarsögu segir frá því að Guðmundur ábóti var boðinn til
vinaveislu að Holtastöðum og fylgdu honum tveir bræður, Björn og