Húnavaka - 01.05.1984, Page 87
HÚNAVAKA
85
trúlega enn aukið við eignir sínar eftir Svartadauða. I Sigurðarregistri
frá 1525 er getið 62 jarða í byggð og 33 eyðijarða í eigu klaustursins,
flestra í Húnaþingi, auk reka og hvalítaka á Ströndum og Skaga.
Verður að ætla að auður klaustursins hafi gert því fært að miðla mat
og annarri björg í harðærum. Hafi klaustrið þannig veitt forsjá og
vernd í veraldlegum efnum jafnt og andlegum.
Orðalag Sigurðarregisturs um bókaeign klaustursins er óljóst og
verður því vart séð hvort Þingeyrar eru þar fremri Möðruvöllum, en
greinilegt er að Reynistaður á rýrastan bókakost. Á Þingeyrum eru
taldar upp ýmsar guðsorðabækur, ekki færri en 30, þvi næst er getið
margra latínubóka á háaltari, góðra og illra, þá norrænna bóka, eru
það eingöngu biskupa-, dýrlinga- og guðsorðabækur. Síðast en ekki
síst er getið hinna og þessara skræðna, rotinna og gamalla. Spurning
hvort þar eru komin hin veraldlegu fræðin.
Klausturkirkjan virðist hafa verið ríkulega búin messuklæðum,
silfurmunum og dýrlingamyndum. Klukkur tvær vænar voru þar og
þrjár smábjöllur. Heima á staðnum voru 56 nautgripir, 340 fjár og 10
hross. Hinsvegar voru hrífur aðeins 7 og ljáir 5. Má því ætla að
leiguliðar hafi verið skyldir til að vinna á höfuðbólinu. í Sigurðarreg-
istri er getið smiðju sæmilegrar, áttærings og tveggja sexæringa. (Isl.
fornbr. IX, bls. 312-316).
Endalok klaustursins
Siðaskiptin voru örlagavaldur í sögu Þingeyraklausturs eins og
reyndar þjóðarinnar allrar.
Árið 1545 gaf konungur Sveini nokkrum Einarssyni umboð fyrir
Þingeyraklaustri. Skyldi hann ala önn fyrir munkunum og byggja og
endurbæta klaustrið. (Isl. fornb. XI, bls. 378). Óvíst er hvort Sveinn
þessi náði nokkurn tíma umráðum yfir Þingeyrum, a.m.k. var Helgi
Höskuldsson ábóti þar 1549 og Jón Arason enn allsráðandi í Hóla-
stifti. Árið 1551 lagðist klausturhald niður á Þingeyrum. Öldruðum
munkum og farlama var þó heimilt að dveljast í klaustrinu áfram gegn
því að þeir bæru ekki munkaklæði. Með þessum munkum lagðist
klausturlíf á Þingeyrum endanlega niður. Allar jarðeignir klaustursins
lögðust undir konung og hafði hann jafnan umboðsmenn á Þingeyr-
um, „klausturhaldara“, þar til Björn Ólsen frá Vindhæli keypti jörð-