Húnavaka - 01.05.1984, Page 91
MARGRÉT JÓNSDÓTTIR frá Fjalli:
Því gleymi ég aldrei
Ég ætla að segja frá atviki, er kom fyrir mig þegar ég var níu ára. Ég
átti þá heima í Kambakoti i Vindhælishreppi hjá foreldrum mínum,
er þar bjuggu, Jóni Klemenssyni og Guðrúnu Sigurðardóttur. Næsti
bær norðan við Kambakot, er Kjalarland. Hann stendur vestan í hárri
og breiðri bungu er Kjölur heitir, og bærinn dregur nafn af.
Bláland stendur ofar, við rætur fjalls er Blálandshnjúkur heitir,
öðru nafni Hörfell. A milli Kambakots og þessara tveggja bæja rennur
Brunná. Ef maður ætlar út að Kjalarlandi eða Blálandi þarf að fara
yfir Brunná. Þar sem farið er að ánni heitir Selhvammur, mjög bratt-
ur. Hann er beint norður af Kambakoti.
Annar hvammur er niður með ánni er heitir Vaðhvammur. Milli
þessara hvamma er djúpt klettagil, sem er aðeins fært þeim sem geta
lyft sér á hröðum væng.
Um áramótin 1921-22 var okkur boðið út að Kjalarlandi á nýjárs-
fagnað. Við lögðum af stað upp úr hádegi og dvöldum þar í góðum
fagnaði fram á kvöld. Veðrið var mjög gott, og tunglið var komið upp
er við fórum heim. Það var mikill snjór og harðfenni svo að gangfæri
var eins og best var á kosið. Fólkið talaði um að það væri bjart eins og
um hádag. Þar voru engin götuljós til að eyðileggja hina rómantísku
birtu tunglsins.
Þegar heim kom fóru foreldrar mínir að tala um að leiðinlegt væri
að geta ekki sent mjólk út að Kjalarlandi, þar sem kýrnar þar væru
geldar, en það höfðu þau ekki vitað fyrr. Þá var enginn sími á milli
bæja eins og nú, ekki hægt að setjast niður og spjalla við náungann.
Hvort sem talað var um þetta lengur eða skemur, varð það úr að
senda okkur systur til baka þegar búið væri að mjólka. Við lögðum svo
af stað með mjólk í flöskum, berandi í bak og fyrir, eins og sagt er.