Húnavaka - 01.05.1984, Side 92
90
HÚNAVAKA
Þetta er nokkuð löng leið svo að við fórum hægt. Er við komum loks í
áfangastað ætlaði fólkið að fara að hátta.
Ósk, en svo hét húsmóðirin, bað Guð fyrir sér er hún sá að við
vorum komnar aftur og það með mjólk handa þeim. Við stönsuðum
ekki neitt en lögðum af stað heim út í nóttina, tvö börn. En það var
enginn ótti eða hræðsla í okkur.
Enn hló máninn frá heiðum himni, sendi sína björtu, en köldu
geisla yfir láð og lög, og merlaði hafflötinn fagurlega eins og spegil.
Nóttin var kyrr og allt hljótt, enginn andvari úr neinni átt. Við
héldum sem leið liggur upp yfir Kjölinn, og vorum komnar upp í
dragið, sem er beint vestur af Blálandshnjúknum.
Engin skepna gat verið þar álitum við. Það lá þykkur snjór yfir öllu
svo langt sem við sáum upp og alveg niður í dragið, sem við vorum að
fara yfir.
Allt í einu barst okkur til eyrna þramm, eins og væri stigið mjög
þungt til jarðar. Við stönsuðum og spurningar vöknuðu. Hvað getur
þetta verið? Það gátum við ekki giskað á, en það fór að fara um okkur
ónotageigur. Okkur heyrðist þetta koma ofan frá fjallinu, og nú var
nýjársnótt. Ýmsar sagnir höfðum við heyrt af því sem hefði gerst um
áramót.
Þetta færðist nær og nær. Við sáum eitthvað grátt flikki koma
þrammandi í átt til okkar. Mín fyrsta hugsun var. Þetta er risi úr
fjallinu. Ég varð skelfingu lostin, og býst ég við að eitthvað svipað hafi
bærst með systur minni, þó að henni hafi kannski ekki dottið risi í hug.
Hún var lika nokkuð eldri og vitrari en ég.
Hvað svo sem bærst hefir með okkur þetta augnablik, þá biðum við
ekki eftir að hitta þetta fyrirbæri. Við hlupum af stað eins og við
ættum lífið að leysa, hlupum í dauðans ofboði. Við þurftum að fara
yfir ána sem var ísi lögð og bratt að henni að norðan, en ennþá
brattara að sunnan þar sem Selhvammurinn er. Þar þurftum við að
fara upp, en við linntum ekki á sprettinum. Aldrei litum við til baka.
Við hlupum alla leið heim án þess að hægja á ferðinni. Þetta var það
langt, að undir venjulegum kringumstæðum hleypur þetta enginn í
einum spretti, nema þolhlauparar, en þá hlaupa þeir sjaldan það hratt
að þeir taki á öllum þeim kröftum sem þeir hafa yfir að ráða. Þetta var
samt þannig að um það var ekki hægt að tala að mér fannst. Aldrei
sagði ég frá þessu, og veit ekki til að systir mín hafi nokkurn tíma talað
um það, þó gæti það verið þó að ég hafi ekki heyrt um það.