Húnavaka - 01.05.1984, Page 107
HÚNAVAKA
105
Við sáum ekki annað betra ráð en drösla honum á bak Jarpi. Það
tókst, þó að Jarpur væri miður hrifinn af tiltækinu.
Hrússi komst heim og lifði volkið af. Daginn eftir var hann sóttur af
eiganda sínum. Jarpur fékk rúgbrauð að launum og víst er að lambið
hefði drepist ef Jarpur hefði ekki vísað á það. Margar fleiri sögur
gætum við sagt af Jarpi, enda er hann alltaf í hugum okkar höfðingi
hrossanna.
Lýsingur kom á heimilið árið sem við urðum sjö ára og er hann
jafnaldri okkar. Við lærðum að sitja hest á honum. Lýsingur er leirljós,
blesóttur, og hvað ytra útlit snertir prýðir liturinn hann mest, því að
hann er fremur þyngslalega vaxinn. Faxið nuddar hann svo af sér á
girðingum yfir sumarið, svo að það stendur eins og burst út í loftið.
Taglið lætur hann, sem betur fer, vera og stokkast það glæsilega þegar
hugur er í honum og hann töltir.
Lýsingur er mislyndur en þýðgengur að eðlisfari og er hann því
vinsæll til ásetu þegar lengra er farið. Að sumu leyti er hann ekki
ákjósanlegur barnahestur, því að í háttum er hann vægast sagt
dyntóttur. Hann átti það til að rjúka með okkur þegar minnst varði og
einnig skvetti hann stundum upp afturendanum, þegar hann var
búinn að fá leið á okkur í bili.
Einu sinni vorum við staddar fram við Auðkúlurétt og þrímenntum
með vinkonu okkar hvern hringinn á fætur öðrum í kringum réttina.
Sem von var hafði Lýsingur lítið gaman af og stansaði því við einar
dilksdyrnar. Við vildum hvetja hann áfram og fórum að berja fóta-
stokkinn. Lýsingur tók þá að yppta rassinum, en þar sem við höfðum
kynnst þessu áður sátum við sem fastast. I því gekk fram hjá kona, sem
virtist hræddari en við, því að hún byrjaði að skrækja. „Passið ykkur
krakkar, passið ykkur.“
Það er ekki hægt að segja um Lýsing að hann láti vel að stjórn.
Frændi okkar, sem er borgarbarn, sagði einu sinni eftir reiðtúr, að
Lýsingur væri með bilaðar bremsur.
Lýsingur hefur þó verið Dísu systur okkar enn erfiðari en hann var
okkur nokkurn tíma. Hann hefur í gegnum árin lært að vega og meta
færni knapa sér i hag. Þó Lýsingur sé oft fyrirtektarsamur, þykir okkur
vænt um hann, enda kenndi hann okkur að sitja hest. Hann er ákaf-
lega sérkennilegur persónuleiki og oft kemur fram að hann veit sínu
viti og væri eflaust hægt að skrifa um hann heila bók.
Veturinn áður en Lýsingur kom hingað, gekk á túninu jörp hryssa