Húnavaka - 01.05.1984, Page 115
HUNAVAKA
113
Júlíus var meðalmaður á hæð, þrekinn um herðar. Ég heyrði hon-
um lýst á eftirfarandi hátt: „Hann er hnellinn í átökum og glettinn í
svörum.“ Hann var húmoristi og orðaði sína fyndni svo vel, að auðvelt
var að hafa hana eftir.
Eitt sinn á öndverðu sumri struku heimahestar okkar á Örlygsstöð-
um, að við héldum til heiðar. Ég var sendur að leita þeirra gangandi.
Ég fór að heiman seinnipart nætur, fór austur um Bruna sunnan-
verðan, austur um Asa, upp á Moldás, út Miðheiði, út á Svínafell og
síðan um Borgir og Bjargtögl og fram um Krókssel. Þar var ég vanur
að koma við ef ég fór þar nærri og svo gerði ég nú.
Júlíus bóndi var úti staddur, og er við höfðum heilsast, spurði. ég
hann hvert hann hefði nú sigað hrossunum okkar. Þótt við værum
kunningjar töluðum við oft saman í skætingi og fór ég jafnan halloka
ef hann hlífði mér ekki, því hann var manna best orðhagur og mein-
yrtur ef hann beitti því. Júlíus bauð mér að koma inn og tylla mér, en
ég sagðist ekki geta þegið það því svo væri ég svangur að þótt ég æti
allan hans mat myndi það ekki seðja lyst mína. Þá segir karl að ekki sé
að sjá að ég væri vanur smali, að æða austur alla Skagaheiði án þess að
spyrja nábúa heiðarinnar um hvað þeir hafi séð. Og karl heldur áfram.
„Það er af hestunum að segja að þeir komu hér heim að túni i morgun.
Ég rölti á eftir þeim hér vestur holtin ofan á veg og sigaði þeim heim á
leið og hélt að þeir myndu rata. En þegar þeir komu inn á Bjargið
mættu þeir tveim mönnum ríðandi og fóru út af veginum og eru nú
þarna norðan við Brunann sem þú getur séð, og komdu nú inn og
tylltu þér þó þú fáir lítið í sultinn.“ Eg gerði sem hann bauð og fylgdi
honum inn. Við suðurstafn baðstofunnar var lítið borð, fjalir negldar
á grind, og yfirbreidd rúm sitt hvoru megin við borðið. Þar settumst
við hvor gagnvart öðrum og tókum tal saman. Eftir stundarkorn kom
húsfreyjan inn með þrjár nýbakaðar flatkökur á diski og smjörsköku-
enda á undirskál. Hún sagðist búast við að ég væri svangur, og nú gæti
ég fengið mér bita, en vellingurinn væri ekki alveg orðinn soðinn.
Skömmu seinna kom hún svo inn með vellinginn á diski og sagði mér
að gera svo vel.
Oft hefur mér svöngum verið gefið að borða, en þessi máltíð mun
verða mér minnisstæðust. Ég var þreyttur og svangur, fór að heiman
um óttuskeið, en nú var komið nón og hafði ég því verið á göngu í 12
klukkutíma, og það er hægt að verða svangur af minnu.
8