Húnavaka - 01.05.1984, Page 125
BJÖRN MAGNÚSSON:
Jón halti
Þegar ég var unglingur skömmu eftir siðustu aldamót, sá ég í fyrsta
sinn Jón halta. Mér varð æði starsýnt á manninn. f raun og veru var
ekki rétt að kalla hann haltan, því haltur var hann ekki, heldur
bjagaður. Hann mun hafa verið nokkuð krepptur um hnén, og hann
seig mjög niður þegar hann gekk, og nugguðust hnéliðirnir saman og
fæturnir mynduðu skálínu útávið frá hnéliðunum. Hann gekk við
gildan sterkan staf í hægri hendi en veifaði þeirri vinstri út frá sér líkt
og væng, til þess að halda jafnvægi. Höndin hvíldi þungt á stafnum og
var sem hann ýtti sér áfram skáhallt sitt á hvað, en gæti lítt eða ekkert
lyft fótunum. Ekki gat hann gengið í þýfi eða snjó en á sléttum velli
miðaði honum furðanlega, enda bar hugurinn hann hálfa leið, því
hann var hinn mesti hörku og kappsmaður.
Hann var tæplega meðalmaður á hæð, en sýndist lægri vegna þess
hve hann seig niður er hann gekk.
Hann var fölur yfirlitum. Augun gráblá og hvöss undir miklum
brúnum og háu hvelfdu enni. Skeggið skolbjart alskegg. Hárið svart og
mjög hrokkið.
Hann var greindur maður og fróður um margt, sagði skýrt og
skipulega frá en var stirðmæltur og seinmæltur, og lýtti það mjög
frásagnarhátt hans. Þegar þar við bættist mikil nákvæmni í frásögn
þar sem öllu var haldið til haga, gat verið nokkuð erfitt að halda
athyglinni vakandi og hlusta á sögulokin.
Hann var góður lesari, röddin hrein og sterk. Skrifaði skýra rithönd
en fremur stirða. Ætíð skrifaði hann á hné sér, eins og var háttur þeirra
manna er enga fengu tilsögnina og höfðu hvorki borð né stól, en urðu
að sitja á rúmum sínum, oft við lélega birtu. Hann stafsetti mjög rétt,
ekki vissi ég hvort hann hafði lært íslenska málfræði eða stafsetningar-
reglur, en ég hygg að kunnátta hans hafi fremur byggst á athygli hans