Húnavaka - 01.05.1984, Page 151
HUNAVAKA
149
og söknuðinn eftir missi konu sinnar með því að sökkva sér niður í
vinnu. Vinir og nágrannar litu daglega inn í vinnustofu hans og
systkini og frændlið léttu honum lífið og fóru með hann í styttri og
lengri ferðir um landið. En brátt tók sig upp hinn gamli sjúkdómur,
sem náði nú yfirtökunum, þó allt væri reynt, sem í mannlegu valdi
stóð til að lækning fengist, varð engum vörnum við komið. Hann
andaðist á Héraðshælinu á Blönduósi 17.ágúst 1983, ogvar útför hans
gerð frá Blönduóskirkju 27. ágúst að viðstöddu miklu fjölmenni.
Gömlu vinirnir í Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps sungu við útförina,
vinur hans og nágranni í mörg ár, Skarphéðinn Einarsson, lék á
trompet og ung stúlka úr Reykjavík, Sigrún Eðvaldsdóttir, lék á fiðlu.
Þegar kista hans var borin úr kirkjunni lék þessi unga stúlka lag eftir
Jónas „Ég skal vaka í nótt meðan svanirnir sofa“ — og er ljóðið einnig
eftir hann. Frændur, mágar og vinir báru hann upp brekkuna síðasta
spölinn. Hátíðlegur virðuleiki var yfir athöfninni allri.
En Jónas er ekki horfinn okkur með öllu því verk hans lifa meðal
okkar. Hann lagði grundvöllinn að mörgum málum, sem eiga eftir að
bera ríkulegan ávöxt.
Þorbjörg og Jónas leiðast ekki framar um götur og stiga á bökkum
Blöndu, en velgjörða þeirra í félags- og menningarmálum þessa
byggðarlags verður lengi minnst. Jónas Tryggvason, þú varst vinur
vina þinna, vinur i raun.
Solveig Benediktsdóttir.
Kveðja frá systur
Horfinn er nú hörpusmiður
hljóð er þessi stund.
Kyrrð í dalnum, kvöldsins friður
kalla á Drottins fund.
Öllum vildir gott hér gera
greiða hvers manns braut.
í sátt við lífið sýndist vera
sár þó væri þraut.
Langt er flug frá lágum ströndum
létt þó sólarsýn.
Sjáandi í sælulöndum
syngdu lögin þín.
Anna Tryggvadóttir.