Húnavaka - 01.05.1984, Page 172
170
HÚNAVAKA
Einar Haraldsson Dagsbrún, Skagaströnd, lést hinn 14. nóvember.
Einar var fæddur hinn 24. september árið 1925 að Breiðavaði í
Langadal. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Kristófersdóttir frá
Breiðavaði og Haraldur Guðbrandsson frá
Mýrakoti á Laxárdal. Þegar Einar var barn
að aldri skildu leiðir foreldra hans og ólst
hann upp hjá móður sinni að Breiðavaði.
Skóla sótti Einar þar í sveitinni. Eftir að
hann lauk skólagöngu tók hann virkan þátt í
rekstri búsins að Breiðavaði ásamt móður
sinni, en þar var margt í heimili auk þeirra
mæðgina og Kristjönu systur Einars, því frú
Sigriður hélt vinnufólk á bænum, og auk
þess voru þar afabræður Einars þeir Árni og
Sveinn Einarssynir. Fór svo, að smám saman
tók Einar að axla æ meira þá ábyrgð sem búsforráðum fylgir, því gæta
tók heilsubrests hjá móður hans, og kom þar að hún flutti til Reykja-
víkur til lækninga. Hún andaðist fyrir ári síðan. Um það leyti er frú
Sigríður flutti suður kynntist Einar Ólínu Guðlaugu Hjartardóttur og
hófu þau búskap á Breiðavaði, en fluttust síðan að jörðinni Miðgili í
Langadal. Að Miðgili voru þau í þrjú ár, en komu þá að jörðinni
Kjalarlandi í Vindhælishreppi þar sem þau bjuggu næstu sex árin.
Þaðan fluttu þau í Dagsbrún á Skagaströnd þar sem þau bjuggu síðan.
Ólína lést nú í sumar. Börnin eru fjögur, þau Guðbjörg Pálína, Sig-
ríður, Kristófer og Skarphéðinn.
Eftir að Einar fluttist með fjölskyldu sína í Dagsbrún stundaði hann
búskap fyrstu árin en síðan einnig almenna verkamannavinnu. Þá var
hann við störf hjá Kaupfélaginu á Skagaströnd. Einar unni skepnum
sínum og hafði yndi af að sinna þeim, gerði það þrátt fyrir versnandi
heilsu fram á síðasta dag.
Einar var liðlega 58 ára að aldri er hann lést. Útför hans var gerð frá
Hólaneskirkju 19. nóvember 1983 og var hann jarðsettur í Gufunes-
kirkjugarði í Reykjavík 21. nóvember 1983.
Sigurborg Hallbjarnardóttir lést á Héraðshælinu á Blönduósi hinn 3.
desember 1983. Hún var fædd hinn 24. ágúst árið 1892 í Flatey á
Breiðafirði. Foreldrar hennar voru þau Hallbjörn Bergmann sjómað-
ur og síðar skipstjóri í Flatey, og Guðlaug Þorgeirsdóttir. Auk Sigur-