Húnavaka - 01.05.1988, Page 12
10
HUNAVAKA
Faðir minn kvæntist 1905 og fluttist þá að Fossi og bjó þar næstu
árin, en móðir mín andaðist 1909. Vorið 1915 flutti faðir minn að
Ytra-Hóli ásamt seinni konu sinni, Sigríði Árnadóttur frá Þverá í
Hallárdal. Ég man eftir því að ég kveið fyrir að flytjast frá Fossi því að
þar voru krakkar til að leika sér við. Þegar ég kom hingað vestur var ég
aleinn innan um fullorðið fólk og leiddist verulega fyrstu dagana.
Um sumarið var tekinn piltur, Þormóður Jakobsson, sem var hér í
fjöldamörg ár. Við lékum okkur mikið saman og samdi með ágætum.
Síðan, eða frá sjö ára aldri, hef ég verið mikið hér viðloða og árið 1930
hóf ég búskap á hluta jarðarinnar. Fyrsta árið bjó hér einnig Sigurður
Guðlaugsson, sem síðar varð bóndi í Neðstabæ og Hafursstöðum. Það
get ég sagt þér að samkomulagið var svo gott að aldrei rifumst við
meðan við bjuggum saman.
Faðir minn hafði dáið 1917 en fóstra mín bjó áfram til 1923 að hún
flutti til Blönduóss, en nú kom hún til mín og var ráðskona í nokkur ár.
Þann 16. júní 1937 steig ég það gæfuspor að kvænast Björgu Björns-
dóttur frá Örlygsstöðum. Síðan er rösk hálf öld og við höfum þolað
bæði súrt og sætt saman en oftast hefur það bjarta í lífinu fylgt okkur.
Keyptir þú Ytra-Hól?
Faðir minn keypti jörðina, þegar hann flutti hingað 1915, af Krist-
jáni Guðmundssyni, sem var ábúandi hér. Kristján hafði kauparéttinn
og keypti hana af Kristfjárjarðasjóði, en hann tók 1000 krónur fyrir
milligönguna. Það fannst okkur ansi mikið, því að það varð að borga
strax. Jörðina átti að borga á 28 árum og skyldi greiða 118,80 krónur á
ári. Með í þessu verði fylgdu sex kvígildisær jörðinni. Og árið 1943
lauk ég síðustu greiðslu jarðarverðsins.
Nýstárleg lífsreynsla
Hvað gerðir þú árin áður en þú hófst búskap?
Frá því ég fór frá stjúpu minni árið 1923 var ég á ýmsum stöðum, en
einna lengst á Blönduósi á vegum Kristjáns Arinbjarnar læknis. Þar
var ég í ýmsum störfum, fjósamaður, hestahirðir og annaðist um
ljósamótor, sem látinn var framleiða rafmagn fyrir nokkur hús á
Blönduósi. Mér líkaði ágætlega þar. Kristján var valmenni, góður
húsbóndi og ráðhollur fram til endadægurs. Ég fór nokkrar vetrar-