Húnavaka - 01.05.1988, Page 20
18
HÚNAVAKA
Ég keypti minn „kubb“
Hvernig var á kreppuárunum?
Þá áttu margir bændur í erfiðleikum vegna skulda. Stofnaður var
svokallaður kreppulánasjóður til að hjálpa þessum bændum. Ég varð
nú ekki svo frægur að komast í hann, en margir bændur komust í hann
og fengu eftirgjöf á hluta sinna skulda og lán. Upp úr því skapaðist
ansi mikil tortryggni í öllum viðskiptum bæði hjá kaupfélagsstjóran-
um og fleirum. Pétur Theódórs sem þá var kaupfélagsstjóri hér varð
óskaplega var um sig fyrst á eftir. Einu sinni bað ég hann að hjálpa
mér um 30 krónur, sem mér bráðlá á.
Geturðu búist við því eða hefur þú lækkað skuldirnar, sagði Pétur.
Nei, ég hafði nú ekki gert það, en bjóst við að hann mundi hjálpa
mér í þessu tilviki. Nei, það var ekki við það komandi. Ég mátti labba
peningalaus út af skrifstofunni og þangað kom ég ekki marga daga á
eftir. Svona atvik geta gripið mann ansi illa, ekki síst þegar treyst er á
eitthvað. Og þetta sat lengi í mér. En það var kreppa og dilkurinn
kominn niður í 10 krónur.
Löngu síðar varð ég það mikill stórbóndi að eignast dráttarvél, sem
var að vísu Earmal-kubbur. Þá var mér ráðlagt að vera ekki að þessu
óhófi, því að sjá hann Rögnvald í Vatnahverfi koma á dráttarvél alla
leið niður í pakkhús og sækja einn poka af fóðurbæti. Það væri aldeilis
hörmung, í stað þess að flytja þetta með kaupfélagsbílunum. Ég var
svo þrár að ég ansaði þessu engu og keypti minn „kubb“.
Nokkru síðar hafði ég hug á að fá mér jeppa. Þá var alveg sama
viðbáran. Ég hefði ekkert með jeppa að gera. Það væri fásinna að eyða
aurunum í slíkt. Það varð nú bara til þess að ég varð enn ákveðnari að
kaupa jeppann. Þá þurfti að sækja um leyfi fyrir jeppa til Nýbygg-
ingarráðs. f fyrstu fékk ég neitun og síðan undanbrögð. Það líkaði mér
ekki og bað þá að hætta að senda mér myndablöð, en láta mig hafa
jeppann. Loksins eftir mikil tilskrif fékk ég jeppann, sem þjónaði mér
vel.
Á stríðsárunum 1939-1945 var skömmtun á mörgum nauðsynja-
vörum svo sem hveiti, rúgmjöli, kaffi og sykri. Skömmtun þessi var svo
naum að skrifa varð upp á lappa hjá oddvita og sækja um miða fyrir
aukaskammti ef halda átti upp á afmæli eða slá upp veislu. Stundum