Húnavaka - 01.05.1988, Side 33
JÓN TRYGGVASON, Ártúnum:
Nokkur orð um landnám
Ævars gamla Ketilssonar
Islendingar eru stoltir af sinni fortíð, ekki síst þeirri miklu ritun, sem
geymst hefur frá fyrri öldum. Margt hefur þó glatast, sem að líkum
lætur. Það er þvi ekki undarlegt þótt menn velti fyrir sér mörgu því,
sem í þessum fornu sögum stendur, rýni í orð og eyður og reyni með
þeim hætti að fylla inn í heildarrammann eftir því sem tök eru á.
Ég er einn þeirra manna, sem tek tveim höndum skýringum og
vangaveltum ýmis konar, frá þeim, sem kynnt hafa sér þessi mál, og
oftar en ekki getað dregið þar af nokkurn lærdóm. Hitt tel ég mig líka
hafa orðið varan við að sumir þessara fræðimanna taki málin ekki
nægilega hlutlausum tökum, láti liggja í þagnargildi nokkuð af því,
sem máli skiptir, en hampi öðru um of, sem styður að þóknanlegri
niðurstöðu. Slíkt hæfir ekki og þjónar heldurengum tilgangi, því erfitt
mun reynast að sanna eða afsanna flest frá þeim tíma.
Ekki er vansalaust hve fornleifarannsóknum er fjárhagslega þröng-
ur stakkur skorinn, en þær standa þó næst því að styrkja líkur og
tímasetja, að einhverju marki, ákveðna hluti frá löngu liðnum tíma. f
því sambandi nægir að benda á, að rannsóknir þær, sem gerðar hafa
verið í Hrafnkelsdal á undanförnum árum, styðja ákveðið að því að
þar hafi, á fyrstu árum íslandsbyggðar, verið þétt setin sveit eins og
sögur herma. Ekki minni maður í fornfræðum en Sigurður Nordal, og
raunar fleiri, höfðu dregið sannleiksgildi Hrafnkötlu mjög í efa og talið
að þar væri nánast aðeins um góðan skáldskap að ræða.
Jón Helgason, skáld og fræðimaður, mælir svo í einræðu sinni til
höfundar Hungurvöku:
Það féll í hlut minn að hyggja um sinn
að handaverkunum þínum,
mér fannst sem ættir þú arfinn þinn
undir trúnaði mínum.