Húnavaka - 01.05.1988, Side 36
34
HUNAVAKA
segir. Einmitt þar tekur Fnjóskáin sveig til vesturs, um Dalsmynni til
Eyjafjarðar. Ekki skiptir máli, í þessu sambandi, að dalurinn heitir
ekki Fnjóskárdalur heldur Fnjóskadalur og áin Fnjóská. Dalurinn og
áin fylgjast að undir sömu formerkjum, áin sveigir af leið en dalurinn
ekki, heldur raunar stefnu sinni áfram til norðurs.
Til að undirstrika álit almennings á slíku landslagi, þar sem ána ber
þvert frá legu dalsins, hefur stórbýli í Dalsmynni verið gefið nafnið
Skarð, segir það sína sögu.
Langsamlega mest gildir þó hin almenna huglæga afstaða: Dalir
liggja frá hafi til heiða, þar sem þeir nánast hverfa inn í hálendið. Vötn
falla að sjálfsögðu sömu leið til hafs. Á Norðurlandi er því meginstefna
dala norður-suður og skarða austur-vestur. Engan þarf því að undra
þó vafist hafi og vefjist enn fyrir mönnum, að kalla Svartárdalinn
áfram því nafni eftir að Svartáin, við Bólstaðarhlið, hefur tekið stefnu
þvert í vestur til Blöndu, enda hef ég hvergi heyrt að svo hafi nokkru
sinni verið gert.
Menn virðast sammála um, að fornar heimildir telji bæinn Ból-
staðarhlíð oftar i Langadal en Svartárdal, ef staðnum var á annað
borð valið umhverfisnafn. Bendir það, ásamt fleiru, til þess að land-
nám Ævars hafi náð að Hlíðará.
í því sambandi er og þess að geta, að Eyvindur sörkvir nam
Blöndudal og ekki ólíklegt að þeir hafi gjarnan viljað hafa samlæg
landamerki. Margt í sögum styður það, að nokkurt samband hafi verið
milli landnámsflokka Ævars og Ingimundar á Hofi, m.a. má minna á
að þeir Gautur í Gautsdal og Eyvindur sörkvir „fóru sér sjálfir og vildu
eigi lifa Ingimund inn gamla.“ Því gæti ekki talist líklegt að landnám
Ævars hafi aðeins náð til ármóta Svartár og Blöndu, með óafgerandi
landamerkjum um Hlíðarfjall. Skarðið, austur til Bólstaðarhlíðar,
hefði þá verið numið af einhverjum óþekktum, orðið eins konar
fleygur milli Blöndudals og landnáms Ævars gamla.
Flestir munu sammála um, að telja framhluta Laxárdals innan
landnáms Ævars, án þess það sé bundið hinum margræddu orðum,
„og svo þar fyrir norðan háls.“
Ekki er rétt að neita því að slík hugtakabrenglun, úr fjöllum í háls,
geti hafa átt sér stað, en fleiri leiðir eru þar í sjónmáli. Landnám vestan
Blöndu, norðaustan í Tungunesshálsi, liggur ekki ljóst fyrir. Ævar
hefði því, ekkert síður en aðrir, getað numið þar land. Því til stuðnings
mætti t.d. benda á, að á miðöldum voru beitarítök frá Bólstaðarhlíð