Húnavaka - 01.05.1988, Síða 84
EGGERT LÁRUSSON frá Hjarðartungu:
Ferð til Færeyja
Síðan við hjónin fluttum til Seyðisfjarðar hefur okkur langað að
heimsækja granna okkar Færeyinga, bæði vegna nálægðar og ekki
síður vegna kynna okkar af þeim hér. Mikill samgangur er á milli
vegna siglinga Norrænu og þau kynni hafa verið mjög jákvæð.
í ágústmánuði 1987 var farið að ræða þessa ferð við Jónas Hall-
grimsson, framkvæmdastjóra ferjunnar á Seyðisfirði, og vildi hann allt
fyrir okkur gera eins og hans var von og vísa. Fargjald máttum við
greiða, þegar peningar væru til. Ákveðið var að sigla út 27. ágúst og
koma aftur 3. september. Við tókum með okkur 5 ára vin okkar, Eyjólf
Þorkelsson, en vorum annars í samfloti með þeim Einari Sigurgeirs-
syni, Inga Ásmundssyni, Gunnari Ragnarssyni og konu hans Guð-
laugu Vigfúsdóttur. Vorum við með 3 bíla, svo að nóg var plássið fyrir
mannskapinn. Þessir félagar okkar eiga syni og annað skyldfólk í
Færeyjum og voru með í sínum farangri ýmislegt matarkyns, sérstak-
lega ber, en þau vaxa hvergi á Færeyjum.
Líklega er það að bera í bakkafullan lækinn að ætla sér að skrifa um
dvöl í Færeyjum, þvi að ansi margir Islendingar hafa dvalið þar og
sjálfsagt séð flest, ef ekki allt sem hér verður lýst, en sveitadrengur eins
og ég sá þó margt forvitnilegt. Ég mun styðjast við punkta, sem ég
hripaði niður dag hvern.
Eins og áður er getið hófst þessi ferð 27. ágúst. Mæting var um
tíuleytið um morguninn með bílana, en biðin á bryggjunni varð lengri
en ætlað var í upphafi, því að brottför var ekki fyrr en klukkan 13.
Eftir að hafa skilað öllum skilríkjum var haldið um borð og leitaður
uppi klefinn, sem okkur var ætlaður, og komið fyrir þeim handfar-
angri, sem við vorum með. Síðan var farið í skoðunarferð um skipið.
Þar er allt mögulegt til þess að stytta farþegum stundirnar, leiktæki af
ýmsum gerðum, verslanir, veitingastaðir, bankar og barir.
Þegar komið var út úr fjarðarmynninu fórum við út á dekk, tókum