Húnavaka - 01.05.1988, Síða 129
ELINBORG JÓNSDÓTTIR, Skagaströnd:
Dugmiklar landnámskonur
á 19. öld
Oft hefur verið erfitt að fá jarðnæði til búskapar á íslandi og eflaust
hefur marga, bæði konur og karla, dreymt um að fara að búa þótt
misjafnlega gengi að láta þá drauma rætast. Stundum var gripið til
þess ráðs að reisa nýbýli þar sem ekki hafði áður verið búið, t.d. þar
sem áður hafði verið sel.
Þeir sem fara um Vatnsskarð milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar
hugsa líklega sjaldan um að þar norður í Skörðunum, nokkru norðar
en vegurinn liggur nú, voru tvö sel, sem konur breyttu í ábýlisjarðir,
Selhaga og Þverfell, og bjuggu þar um tíma. Virðist búskapurinn hafa
gengið vel eftir atvikum, þótt lífsbaráttan hafi eflaust oft verið hörð.
Helga Þorleifsdóttir, Þorleifssonar frá Skarðsá í Sæmundarhlíð
eignaðist ung tvö börn, Sigfús og Helgu. Faðir beggja var Oddur
Oddsson hreppstjóri í Geldingaholti.
Árið 1800 er Helga farin að búa í Selhaga. Athyglisvert er að það ár
eru aðeins þrjár manneskjur í Selhaga og heita allar Helga: Helga
Þorleifsdóttir, húsmóðir, 35 ára, Helga Þorbergsdóttir, 11 ára, það ár
skráð léttastúlka en næsta ár fósturbarn, og Helga Oddsdóttir, 5 ára,
dóttir húsfreyju.
Ekki virðist þetta sterkt lið, þó blessast búskapurinn. Næsta ár
fjölgar í Selhaga. Þá bætist við vinnukonan Solveig Teitsdóttir, 18 ára.
Enn er aðeins kvenfólk í Selhaga. Sigfús, sonur Helgu, hafði orðið eftir
í Skagafirði og er 1801 hjá Jóni bróður hennar á Skarðsá. Erfitt eða
ómögulegt er að sjá nú hvaða heimilisfólk er í Selhaga næstu árin, en
varðveist hefur lýsing Björns Bjarnasonar á Brandsstöðum á búskap
Helgu í Selhaga.
Helga Þorleifsdóttir „fór fyrst að búa í gömlu eyðiseli er fékk þá
Selhaga nafn. Þar efldist bú hennar aðdáanlega á fáum árum með