Húnavaka - 01.05.1988, Page 132
130
HUNAVAKA
Vorið 1842 ræðst Ólöf í það stórræði að reisa nýbýli þar sem áður
hafði verið sel frá Bólstaðarhlíð, Hlíðarsel. Bæ sinn kallaði Ólöf Þver-
fell eftir felli þar fyrir ofan, en eftir dauða hennar var hann oft kallaður
og skrifaður Hlíðarsel.
Til bús með Ólöfu fer Eyjólfur sonur hennar, þá 16 ára. Einnig eru á
Þverfelli fyrsta árið Solveig Þorsteinsdóttir 49 ára húskona og Helga
Þorláksdóttir 11 ára dóttir hennar. Eyjólfur fékk alltaf besta orð og
hefur eflaust verið móður sinni mikil stoð við búskapinn, en hann er
aðeins 16 ára unglingur þegar þau byrja að búa en hún mörgu vön,
lífsreynd og dugleg. Þau mæðgin eru oftast tvö ein á Þverfelli næstu
árin og búskapurinn virðist ganga sæmilega þó að það sé enginn
stórbúskapur. Ef til vill hefur Eyjólfi þótt dauflegt þegar til lengdar lét
að vera einn með móður sinni uppi á fjöllunum og 1848 fer hann af
heimilinu um tveggja ára skeið. Næsta ár eru aðeins tvær konur á
Þverfelli, Ólöf og Júlíana Sveinbjarnardóttir, sem seinna fylgdi Sölva
Helgasyni. Júlíana var þá 16 ára. Hún var, sem kunnugt er, fötluð og
þótti aldrei til líkamlegrar vinnu.
Ekki var Júlíana lengi á Þverfelli og næsta ár er Ólöf ein á sínu búi,
en þá fer að búa á hluta af Þverfelli fyrrum húsbóndi hennar og
barnsfaðir, Eyjólfur Jónasson frá Gili, og bústýra hans Málhildur
Gísladóttir. Árið 1850 kemur svo Eyjólfur sonur Ólafar með konu og
barn til móður sinnar og eru þau á búi hennar til 1853, en þá fer
Eyjólfur sjálfur að búa og næstu ár eru þrír búendur á Þverfelli,
Eyjólfarnir báðir og Ólöf. Árin 1853-1856 er Ólöf ein á sínu búi og þrjú
ár þar á eftir er hún húskona á Þverfelli. Loks 1860 hættir Ólöf að búa
ein og fer í hornið til Eyjólfs sonar síns og er hjá honum að minnsta
kosti tvö ár.
í 17 ár borgaði Ólöf tíund til hreppsins, síðustu þrjú árin búlausra
tíund. Tíundin var að vísu alltaf lág en sýnir þó að hún hefur þótt fær
um að leggja sinn skerf til hreppsins.
Ekki hefur mér tekist að finna Ólafar getið í kirkjubókum eftir 1861
þrátt fyrir allmikla leit. Hins vegar hefur Arnór Árnason prestur í
Hvammi í Laxárdal skrifað í ættfræðihandrit að Ólöf hafi andast í
Höfnum 1863 eða 1864 og lík hennar verið flutt til greftrunar að
Bólstaðarhlíð. Á þeim tíma var mjög óvenjulegt að lík væru flutt svo
langan veg til greftrunar.
Gaman væri að vita meira um daglegt líf kvennanna, hugsanir
þeirra og tilfinningar. Eflaust er erfitt fyrir nútímafólk að skilja margt