Húnavaka - 01.05.1988, Page 135
H U N A V A K A
133
þörfum. Síðast er hann kippaður upp, borinn inn og geymdur á
góðum stað og var það helst á skemmulofti ef til var.
Þegar hann var tekinn til matar þurfti að berja hann. Það var gert
með sleggju eða stórum hamri og helst á stórum steini, sem kallaður
var fiskasteinn. Það var enginn sérstakur maður sem hafði þann starfa
á hendi, þó getur það hafa verið á sumum heimilum að þar væri
gamall maður sem hefði það hlutverk að berja fiskinn. Það var ekki
sama hvernig það var gert og fór líka eftir því hvernig hann var hertur.
Væri það freðfiskur, varð hann ullarmjúkur og lítið kvarnaðist út úr
honum. Þá var mikið minni vandi að berja hann, annars vildi fiskur-
inn molna og ódrýgjast og var miklu vandmeðfarnari þegar átti að
berja hann.
Hákarl var dreginn upp um ís, þegar hafis varð landfastur árið 1902
og var hér fram á sumar. Hákarlinn var kæstur í fjörunni, síðar fluttur
heim, vaskaður og hengdur á rá og þurrkaður. Mörgum fannst það
góður matur.
Hér áður voru fjallagrös mikið notuð. Þá fór fólk í útilegu fram á
heiðar og tíndi grös. Ég var eitt ár á Brandsstöðum í Blöndudal og þá
var farið þaðan og frá fleiri bæjum á grasafjall. Sú ferð stóð yfir í viku
og var fólkið í tjöldum. Grösin voru aðallega tínd að nóttunni og sofið
á daginn. Á næturnar var rakt í rót, en þurrt á daginn og þá verra að
tína grösin. Notaðir voru hærusekkir til að láta grösin í, en hærusekkir
voru búnir til úr grófu vaðmáli. Þeir voru aðallega notaðir undir allt
matarkyns. Á grasafjalli varð fólk að búa sig vel, svo að því yrði ekki
kalt. Þá klæddust menn líka ullarfötum, því að öll ull var unnin heima
og prjónað og saumað úr henni.
Kartöflur voru ekki ræktaðar almennt, en gulrófur mikið fyrr og
voru þær soðnar með kjöti, sviðum, í velling og mjólkurgraut. Gul-
rófur voru sums staðar geymdar í jörð og þótti takast vel oftast nær. Ég
man ekki eftir öðrum tegundum af ávöxtum en sveskjum, rúsínum og
gráfíkjum. Gráfíkjurnar voru mitt uppáhald, en ekki til matar heldur
sem sælgæti.
Korn var notað til brauðgerðar, hrært og hnoðað í stóra köku. Hún
var lögð ofan í eisu í hlóðum eldhússins, potti hvolft yfir kökuna,
hálfbrunnu taði raðað utan um pottinn og fyllt þar að með heitri ösku
þangað til allt var horfið. Þetta var látið malla í sólarhring, en þá átti
kakan að vera bökuð. Þetta var kölluð pottkaka.