Húnavaka - 01.05.1988, Page 153
HUNAVAKA
151
Mér brá ónotalega og rauk upp skælandi og spurði hvers vegna Litla
Svört væri sett inn. Það var reynt að hugga mig en gekk illa. Þá var
gripið til blekkinganna. Þetta var allt í lagi, það yrði komið með Litlu
Svört til baka, hún yrði bara rekin með vegna Móru gömlu. Það yrði
ekki hægt að reka hana nema gimbrin færi líka, en það yrði komið með
hana aftur. Ég varð ánægð. Ekki væru foreldrar mínir að skrökva.
Slíkt flögrar ekki að litlu barni. Svo var lagt af stað með reksturinn.
Við systurnar fylgdumst með út mýrarnar og alla leið út að Vað-
hvamminum. Það er bratt ofan að ánni sérstaklega að sunnan og
lömbin voru dálítið óþekk, en þetta gekk þó. Gömlu ærnar sem voru í
hópnum fóru á undan, enda vanar að hlýða. Þannig eiga allir gaml-
ingjar að vera, að sjálfsögðu. Við systur stóðum á syðri barmi Vað-
hvammsins og fylgdumst með er reksturinn fór yfir Brunnána. Aldrei
myndi neitt af þessum kindum koma til baka nema Litla Svört. Og þá
var allt eins og ég óskaði. Við fórum heim til ömmu. Hún var ein
heima og var að undirbúa að taka á móti slátrunum um kvöldið.
Það var áliðið dags og komið myrkur. Amma sagði okkur systrunum
að koma með sér. Hún ætlaði að ganga suður að fjárhúsunum sem
voru suður við girðingu. Veðrið var dásamlega fagurt. Það fannst ekki
minnsti andvari, heiðskír himinn og fullur máni hló og gerði grín að
jarðarbúum, þessum litlu peðum sem halda að þeir séu miklir og eigi
að drottna yfir öllum og öllu. Það var hrím á jörðu og mánaskinið bjó
til glitofið teppi. Ég hvarf á vit ævintýranna. Þó ég væri ekki gömul þá
hafði ég lifað mig inn í ævintýrin sem voru lesin upp á kvöldvökum.
Ég óskaði að ég ætti svona ábreiðu, en þessi fagri glitvefnaður var
kaldur eins og dauðinn. Ég man ekki lengur hvað amma var að gera
suður að húsum, en brátt fórum við heim aftur. Gamli bærinn var
fullur af myrkri og lítið aðlaðandi, en hafði þó veitt skjól í vetrarhríð-
um og frostbyljum. Amma fór með okkur inn í baðstofu og háttaði
okkur. Hún settist á rúmstokkinn og las bænirnar með okkur. Lítið
lampaljós lýsti upp fölt andlit hennar og dökkt hárið. Gamla klukkan
uppi á þilinu taldi tímann, þennan dýrmæta tíma sem okkur er
ætlaður hér til að skynja og skilja til hvers við eigum að nota hann. Það
var alls staðar friður og djúp kyrrð sem fyllti barnssál mína öryggi.
Þegar ég vaknaði morguninn eftir þá var ég ein í baðstofunni, allir
komnir á fætur sennilega fyrir löngu. Ég flýtti mér á fætur og hljóp út
í góða veðrið. Fagurt haustveður, sólskin og logn. Ég sá engan úti.