Húnavaka - 01.05.1988, Page 178
176
HUNAVAKA
reiðinni til baka út á Blönduós og gekk svo heim um nóttina. Þar með
hafði Zophonías farið sína fyrstu ferð í bifreið á eigin ábyrgð og leysti
um leið vanda kennara síns.
Á þennan hátt hóf Zophonías starf sitt sem hann stundaði nær
sextíu ár. Því var þessi ferð hans upphafið að giftusamlegu starfi sem
Zophonías lagði fram á lifsleiðinni til að ryðja brautina til hagsbóta
fyrir Blönduós og nágrannabyggðir. Þar áttu vissulega fleiri hlut að
máli, en Zophonías var þessi einstaki maður, greiðvikinn, hjálpsamur
og úthaldsgóður.
Zophonías Zophoníasson var fæddur 6. júlí 1906 að Æsustöðum í
Langadal. Foreldrar hans voru hjónin Zophonías Einarsson Andrés-
sonar frá Bólu og Guðrún Pálmadóttir Sigurðssonar frá Æsustöðum.
Faðir hans féll frá áður en hann fæddist og var hann skírður eftir
honum. Bróðir Zophoníasar hét Pálmi og var eldri en hann. Hér stóð
því ekkjan ein með tvo syni sína kornunga, en Guðrúnu Pálmadóttur
var ekki fisjað saman. Hún hélt áfram búi á Æsustöðum þar til
Zophonías var kominn nær fermingu, en þá bauðst henni jörðin
Bjarnastaðir í Vatnsdal. Flutti hún því þangað ásamt sonum sínum.
Fljótlega tók hún í fóstur sex mánaða svein, Þorbjörn Ólafsson, sem nú
býr í Reykjavík. Hann varð þannig uppeldisbróðir Zophoníasar.
Bjarnastaðir er lítil jörð yst í Vatnsdal, austan við einkar vinalegt
stöðuvatn, sem Flóðið nefnist. I þessu fallega og víðfeðma umhverfi
átti Zophonías heima næstu árin og vann við hin gömlu hefðbundnu
störf íslensks sveitabúskapar eins og þau höfðu gengið til öld eftir öld.
En einmitt á þessum árum var nýtt vor í lofti yfir íslandi. Ný tækni og
ný hugsun var að ryðja sér braut. Hið gamla ísland, sem átti sér í ýmsu
tilliti merka sögu, var slegið sprota nýjunga, sem áttu eftir að gerbylta
gamla lífsstílnum. Ein þessara nýjunga var bifreiðin, sem fyrst kom til
landsins á fyrsta áratug þessarar aldar og átti erfitt uppdráttar til að
byrja með. En ungir menn eins og Zophonías skildu að hér var eitt-
hvað á ferðinni, sem bar framtíðina í skauti sér.
Eins og áður er getið hafði verið rudd braut frá Blönduósi að
Sveinsstöðum skammt frá Bjarnastöðum. Eftir að Zophonías sá fyrsta
bílinn fara þessa braut ákvað hann að fá bílstjórann, Pál Bjarnason, til
að kenna sér á bifreið. En til Reykjavíkur varð Zophonías að fara til að
taka ökupróf. Hann lagði af stað með Goðafossi, nýlegu skipi Eim-
skipafélags íslands, í ársbyrjun 1927. Skipið hreppti vonskuveður og
var veðurteppt á Húnaflóahöfnum í viku, svo ferðin til Reykjavíkur