Húnavaka - 01.05.1988, Page 186
184
HUNAVAKA
föðurætt. Hjá þeim ágætu hjónum ólst hann síðan upp til fullorðins-
ára og við þann bæ var hann jafnan kenndur. Þó fullorðinsárum væri
náð vann hann áfram að búinu með þeim hjónum allt til þess er þau
hættu búskap og létu jörðina í hendur dóttur sinnar og tengdasonar og
fluttust til Reykjavíkur. Þau Holtshjón áttu engan son en þrjár dætur
svo það kom sér vel hversu Jóni var ljúft að annast um búið með
Jóhanni. Hann féll eins og sjálfkrafa inn í heimilið og vann því með
sannri trúmennsku.
Kynni okkar Jóns hófust fljótlega eftir að hann kom að Holti. Mig
minnir að við hittumst fyrst á skautum hér á milli bæjanna. Flóinn var
þá blautur og illur yfirferðar nema á vetrum er ísa lagði vel. Þá var
tækifærið notað fyrir skautana, það var aðalsportið í þá daga. Jón átti
góða skauta sem móðir hans hafði gefið honum, smíðaða af Kristjáni í
Vatnsdalshólum. Það var karl sem kunni með járn að fara. Það var
ekki laust við að ég öfundaði frænda minn af þessum góðu gripum,
mínir skautar voru miklu verri. Hann var líka miklu flinkari skauta-
maður en ég, enda þremur árum eldri og það notaði ég mér til
afsökunar. En þarna í leikjum okkar mynduðust með okkur góð kynni
og síðar vinátta, því upp frá þessu lágu leiðir okkar mikið saman, í
barnaskóla, í göngum og í margs konar samstarfi sem nágrannar í
áratugi, í leik og starfi og alltaf reyndist mér Jón vera sami góði
drengurinn.
Eftir að Holtshjónin, Jóhann og Fanný, létu af búskap og fluttu til
Reykjavíkur 1948 stundaði Jón ýmis störf sem buðust. Hann vann
allmörg ár á skurðgröfu hér nyrðra og jafnframt önnur störf syðra á
vetrum. Lengst vann hann hjá Olíufélagi Islands og varð fastur
starfsmaður þar frá 1952 og vann þar meðan aldur og kraftar leyfðu.
Árið 1953 kvæntist Jón eftirlifandi konu sinni Guðrúnu Guð-
mannsdóttur frá Snæringsstöðum í Svínadal, nágranna sínum frá
æskuárunum, ágætiskonu. Þá var virkilega brotið blað í lífssögu þeirra
beggja. Þau bjuggu sér myndarlegt og einkar hlýlegt heimili á
Mánagötu 22 í Reykjavík þar sem samhugur ríkti og snyrtimennska.
Þar mættu manni hlýjar hendur við komuna og góðar óskir þegar
kvatt var. Jón var prúðmenni i allri framgöngu, fremur hlédrægur og
valdi sér ógjarnan besta sætið eða ýtti öðrum til hliðar. Hann var ekki
fæddur „með silfurskeið í munni“. Hann varð að vinna sjálfur hörðum
höndum allt lífið fyrir því sem með þurfti og tókst það með sóma og
möglunarlaust. Honum var hugleikið að umgangast skepnur og hafði