Húnavaka - 01.05.1988, Blaðsíða 197
HUNAVAKA
195
hafi verið honum hugleiknari en flest önnur félagsleg afskipti. Kom
þar tvennt til. Pétur var unnandi útilífs og hafði að eðlisfari ríka
hneigð til veiðiskapar. Hann hafði einnig fylgst með starfi þessa félags
allt frá upphafi, þegar faðir hans tók þar forustu sem í svo mörgum
greinum félagsmála. Kunnu þeir feðgar vel að meta þá möguleika sem
fiskiræktin býr yfir og gerðu sér grein fyrir þeim fyrr en flestir aðrir.
Pétur kvæntist 3. júní 1952 Gerði Aðalbjörnsdóttur bónda í
Hvammi í Langadal, Sigfússonar, og konu hans Bjargar Runólfs-
dóttur. Er Bjargar minnst í Húnavöku 1978. Þeim Gerði og Pétri varð
fimm barna auðið, og voru þau:
Björg Guðrún, fædd 22. febrúar 1952. Húsfreyja og skrifstofumaður
á Akureyri, gift Sigurði Kristinssyni.
Hafsteinn, fæddur 4. ágúst 1953. Rafvirkjameistari á Blönduósi,
kvæntur Sigríði Bjarkadóttur.
Rúnar Aðalbjörn, fæddur 24. júní 1955, dö af slysi 9. október 1967.
Pétur, fæddur 1. febrúar 1957. Bóndi á Gunnsteinsstöðum,
ókvæntur.
Gerður Dagný, fædd 29. júlí 1966. Námsmaður, ógift.
Hólabæjarfjölskyldan hefur verið samhent í starfi og samlyndi gott.
Fjölþætt áhugasvið eru öðru fremur einkenni Gerðar húsfreyju, sem í
senn er gædd góðum gáfum og listrænum hæfileikum í ríkum mæli,
auk þess að vera mikil búsýslukona. Þau hjónin tóku ríkan þátt í
áhugamálum hvors annars, og gott var að koma að Hólabæ og blanda
geði við heimilisfólkið. Skipti þá ekki máli þótt skoðanir færu ekki
saman í ýmsum greinum. Þrátt fyrir velgengni á flestum sviðum hins
jarðneska lífs fóru þau Hólabæjarhjón ekki varhluta af mótlæti þess,
og á síðustu árum áttu þau við nokkra vanheilsu að stríða. Bæði voru
þó einhuga um að láta sér lítt bregða þótt nokkuð syrti að, en taka
sama þátt og fyrr í fjölþættum störfum í sveit og héraði meðan kraftar
entust. Þess vegna eiga vinir þeirra góðar minningar. Þá staldrar
hugurinn við bóndastarfið og löngun síðustu kynslóðar að láta gott af
sér leiða í uppbyggingu og framförum. Því miður læðist að manni sá
grunur að í mörgum greinum sé nútíma þjóðfélag okkar næsta önd-
vert þeirri atvinnugrein, sem fólkið hefur öðru fremur byggt á, hér á
norðurhjara heims. Þá framvindu mála óttaðist Pétur Hafsteinsson
vissulega, þótt hann einnig gerði sér grein fyrir gildi nýrra viðhorfa og
möguleikum nýrra tíma. En að kvöldi dags var gott að fylgjast með
menningarviðleitninni í litlu en ótrúlega fjölskrúðugu samfélagi og