Húnavaka - 01.05.2012, Page 72
H Ú N A V A K A 70
að ég gæti fundið bragðið. Spur var gott og Cream Soda og því ekki Carlsberg?
Það var vandræðalaust að losa um tappann en bragðið reyndist eintóm
vonbrigði. Hins vegar er tappa af þessu tagi alls ekki auðlokað. Ég barði hann
til og hélt mig hafa komið honum í fyrra horf þegar afi kom eftir matinn og
lagðist í rúmið sitt til að sofa í þrjár mínútur áður en hann færi aftur út að iðja.
Það kallaði hann að fleygja sér. Þá heyrðist allt í einu upp úr þurru lágvær
þytur og eins og snörlandi pískur ofan úr útvarpshillunni. Þetta stóð stutt og
líktist eiginlega helst sáru andvarpi. Afa þótti þetta forvitnilegt en það hætti
áður en hann fann upprunann. Þetta andvarp endurtók sig um kvöldið og af
og til næstu sólarhringa meðan nokkur kolsýra var eftir í flöskunni. Afa fannst
afar sérkennilegt að leki skyldi koma að flöskunni út af engu og það fannst mér
líka.
Stöku sinnum geri ég eitthvað sem ég fæ samviskubit yfir þó það sé orðið
sorglega sjaldan. Enn þann dag í dag þekki ég komu samviskubitsins á því að
þá heyri ég eins og lágværan þyt og snörlandi pískur. Hundurinn geltir, kýrin
baular, fuglinn tístir en rödd samviskunnar er eins og þytur í kolsýrunni sem
brýst upp með lekum ölflöskutappa.
Ég fjölyrði ekki um kringlótta borðið sem stóð mitt á milli rúmanna okkar
afa á suðurloftinu; læt þess einungis getið að við þetta borð rakaði afi sig á
sunnudögum og við það reyndi hann að kenna mér að lesa á Nýja testamentið,
Oxford-útgáfuna frá 1863. Við byrjuðum fremst þar sem segir: „Abraham gat
Ísak; og Ísak gat Jakob o.s.frv.“ því að sjálfsögðu byrjaði afi á byrjuninni. Það
var ekki hans art að byrja inni í miðri bók þó þar kynni að vera fjörugri
atburðarás. Á sínum tíma hafði hann eflaust sjálfur verið látinn læra að lesa
þennan texta og fannst það augljós og sjálfgefin aðferð. Það kom hinsvegar
alveg flatt upp á okkur báða hvað hann var viðburðasnauður og þrautleiðinlegur.
Við hættum þessu eftir fáein skipti, án þess að ræða það frekar, og ég fór að
lesa Lestrarbók handa börnum eða Litlu gulu hænuna. Það var annars ekki
háttur Jóns afa að hætta við hálfnuð verk.
Á norðurveggnum ofan við rúmið mitt var dálítið lúin mynd af þremur
litlum stúlkum. Þær stóðu þétt saman og áttu sitthvað sameiginlegt. Þær voru
allar fallegar, allar með sítt hrokkið hár og svo smámynntar að þær hefðu varla
komið upp í sig lítilli kartöflu. Allar gutu augunum fram og upp og þetta hélt
ég í barnaskap mínum að væri augnaráð framsóknarmanna. Stúlkurnar voru
í einlitum náttkjólum; einn var grænn, annar bleikur og sá þriðji blár. Fyrir
framan þær í bringuhæð var einkennilegt dót en þar var rautt hjarta - eins og
í spilum en ekki eins og í kind - og ofan á því brann rauður logi. Undan
hjartanu til hægri sást í ankeri, til vinstri brúnan trékross. Þar fyrir neðan stóð
Tro, Haab og Kærlighed og ég var ekki í vafa um að stúlkurnar hétu þetta og
kenndi í brjóst um Kærlighed að heita svo óþjálu nafni. Fljótlega hafði ég lært
nóg í lestri til að sjá að meinleg ritvilla mundi vera í orðinu Haab.
Ég veit núna að þessi mynd var af kristilegu dyggðunum þremur en á bak
við hana var þilið og bak við þilið var reiðingurinn inni í veggnum og í
reiðingstorfinu, nokkurnveginn í eyrnahæð minni þegar ég lá út af í rúminu,
var þjóðvegur númer eitt í ríki músanna á Húnsstöðum. Meðan ég var að