Húnavaka - 01.05.2012, Page 75
H Ú N A V A K A 73
þá kuðlast ofan í kokið þegar þeir sváfu. Einn þeirra tók öllum öðrum fram í
hrotum. Hann var eins og Pavarotti í samanburði við innansveitarkór, til
dæmis Vökumenn en að þeim ólöstuðum.
Ég hef oft síðan á langri ævi heyrt fólk hrjóta eftirminnilega hátt. Meðal
annars hef ég eytt þónokkrum nóttum í stórum svefnskálum með pílagrímum,
öllum þreyttum, sumum feitum, sumum þýskum, en fari þetta saman vilja
hrotur verða ákaflegar.
Þessi vetrarmaður - köllum hann S - sofnaði jafnskjótt og hann lagði höfuð-
ið á kodda. Þá var eins og lífið sjálft og sálin yfirgæfu hann og alls ekkert lífs-
mark heyrðist frá honum lengi. Í náttmyrkrinu líktist það svo sem kortéri. Þá
dró til tíðinda og maður skynjaði titring og undirgang líkt og þegar hraunkvika
rennur á milli hólfa. Svo allt í einu opnaðist gátt niður í lungun einsog svarthol;
kokvöðvar flöksuðust til, úfurinn dinglaði, gómfillan glamraði og tungan byltist
um í krampa. Vetrarmaðurinn saug til sín súrefni svo á sá á suðurloftinu -
miklu meira en þennan hálfa lítra sem vera á í hverjum andardrætti - með
löngum ýlfrandi hvini. Það var einmitt þetta sem Schiller var að reyna að lýsa
í Kafaranum í þýðingunni hans Steingríms: „Hún vælir og sýður, hún vellur
og gnýr ...“ og svo framvegis.
Ég svaf aldrei dúr allan veturinn sem S gegndi vetrarmannsstarfi. (Vöku-
þolið er ættlægt, samanber að afasystir mín svaf ekkert áratugum saman og
kannski ekki alla ævina.) Það var ekki bara að hávaðinn héldi fyrir mér vöku
heldur var það angistarfull biðin eftir innsoginu. Ég var síhræddur við að nú
hefði gómfillan endanlega losnað, úfurinn bólgnað og bæði hefðu troðist svo
langt ofan í kokið að um það yrði ekki andað framar. Mér fannst ekki þægilegt
að vita af köfnuðum manni á suðurloftinu. Strax og einu innsoginu lauk
byrjaði dauðans löng biðin eftir því næsta. Ég hafði álíka miklar áhyggjur
þennan vetur eins og venjulegt fólk hefur á heilli ævi nema það lendi í
heimsstyrjöld eða verði gjaldþrota. S lifði þennan vetur samt af. Hann vaknaði
raunar eldhress á hverjum morgni og verkafús, með gamanyrði á vör. Þau
fundust mér ekki fyndin.
Í flestu fólki er flatarmálið í lungunum innanvert svipað og í lítilli íbúð eða
nálægt sjötíu og fimm fermetrum. Maður sem andar ekki nema á kortérs fresti
– og ætti því fremur að leggja fyrir sig til dæmis perluköfun en vetrarmennsku
– hlýtur að hafa lungu að innanmáli eins og félagsheimili. Það er mikið
harmsefni að Háskóli Íslands komst ekki yfir lungun úr S, þegar hann dó
nokkrum árum seinna, til þessa að varðveita við hliðina á heilanum úr Einari
Ben.
Á Húnsstöðum var líka hundur sem hraut. Hann hét Lubbi og þegar
minningar mínar hefjast var hann orðinn eins konar eftirlaunaþegi. Sakir
trúmennsku sinnar í óteljandi smalamennskum fékk hann að lifa þegar
ómerkilegri hundum hefði einfaldlega verið fargað. Fyrir löngu voru aðrir
hundar orðnir Húnsstaðahundarnir og hann var varla talinn með; millistig
milli lífs og dauða, skepnu og manns. Hann svaf inni í miðstöðvarkompu á
nóttinni og hraut oft en ekki hátt og engum til ama. Það var svo dagsverkið
hans að ganga út á hlað, borða í leiðinni en sofna síðan aftur.