Húnavaka - 01.05.2013, Page 10
Mér er um og ó.
Allt er fullt af snjó.
Skyldu eigur mínar vera foknar út á sjó?
Þetta er mikið stress.
Ég er ekki hress.
Get ég kannski fundið þetta allt með GPS?
Ég er viss um að það var hér allt í gær.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra stóðu á árinu fyrir Hvatningarverðlaunum
SSNV atvinnuþróunar í A-Hún. Fimm fyrirtæki voru tilnefnd; Ístex, SAH Afurðir,
Blöndubyggð ehf, BioPol ehf og Menningarfélagið Spákonuarfur. Þessi fyrirtæki kynntu
starfsemi sína á sérstakri dagskrá sem haldin var í Kántrýbæ í byrjun desember. Var gaman
að sjá hvernig nýsköpun og framsækni einkenndi þessi fyrirtæki sem þó eru mjög ólík
innbyrðis. Mörg önnur fyrirtæki í A-Hún. komu einnig til greina og er ljóst að Húnvetningar
hafa til að bera kraft og áræðni sem koma mun þeim til góða nú og í framtíðinni.
Laxasetur Íslands opnaði glæsilega sýningu á Blönduósi í júní 2012. Er það vel við hæfi
að upplýsinga- og fræðslumiðstöð um laxfiska sé staðsett í þessu héraði þar sem lax- og
silungsveiði hefur lengi verið í miklum blóma enda margar veiðiár og fjöldi vatna. Eiga
forsvarsmennirnir hrós skilið fyrir framtak sitt. Árið áður tóku bæði Eyvindarstofa og
Spákonuhof til starfa og fyrstu sporin voru tekin í Vatnsdælurefilinn. Það er því engin ládeyða
á þessu sviði.
Í byrjun ársins var stofnað þekkingarsetur sem er til húsa í Kvennaskólanum á Blönduósi
og eiga fjölmargir aðilar þar hlutdeild. Þar verða m.a. stundaðar rannsóknir á ýmsum sviðum
náttúru og textíls og eru miklar vonir bundnar við þetta framfaraspor.
Húnvetningar eru dugnaðarfólk. Landbúnaður og sjávarútvegur standa traustum fótum
auk margvíslegrar annarrar atvinnustarfsemi. Fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf er í boði,
s.s. hestamennska, sund, skíði, knattspyrna, frjálsar íþróttir, handverk og tónlistarnám svo
eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir síaukna möguleika á afþreyingu af ýmsu tagi um sjónvarp og
net er félagslífið blómlegt og fjöldi klúbba og félaga starfandi. Íbúar héraðsins eiga því margra
kosta völ og ef eitthvað er ekki í boði þá er bara að sýna frumkvæði og koma því á fót. Miðað
við aðeins tæplega tvö þúsund manna byggð er ótrúlega margt við að vera í leik og starfi,
grunnþjónustan er góð og því yfir litlu að kvarta. Tökum höndum saman og höldum áfram
að efla góða byggð okkur öllum til hagsbóta.
Á aldarafmæli USAH, 31. mars 2012, gáfu fyrrverandi formenn USAH bikar sem
veittur skyldi ár hvert í viðurkenningarskyni og til hvatningar til áframhaldandi góðra verka
í þágu sambandsins. Á ársþingi USAH 3. mars sl. var Hvatningarbikarinn afhentur í fyrsta
sinn og varð ritstjórn Húnavöku þess heiðurs aðnjótandi. Ritstjórnin þakkar kærlega fyrir sig
og heitir því að gera áfram sitt besta.
Megi árið 2013 verða Húnvetningum og landsmönnum öllum ár framfara og hagsældar,
bæði við leik og störf.
Ingibergur Guðmundsson.
H Ú N A V A K A 8