Húnavaka - 01.05.2013, Page 30
H Ú N A V A K A 28
vissu allir allt um alla. Hún mundi líka eftir þessari konu hér áður, þá hafði hún
verið að ala barn. Líklega fyrir tveimur til þremur árum.
Unga konan brosti.
– Er ég kannski að ónáða þig?
– Nei, mikil ósköp væna mín. Hvað ætti ég sosum að vera að sýsla, aflóga
kerlingarhró.
Unga kona hló og kom inn. Hún var klædd bláum slopp og ilskóm í sama
lit.
– Ég heiti Linda. Þú manst kannski eftir mér?
– Jú, mikil ósköp. Þú fæddir hérna bráðmyndarlegan dreng. Hvað er aftur
langt síðan?
– Hann er tveggja ára síðan í mars.
– Sestu í stólinn þarna, væna mín. Svo ætla ég að hella uppá könnuna
handa okkur. Eitt af því besta við dvölina hérna er hvað maður er sjálfráður.
Það væri lítið gaman ef maður gæti ekki gefið þeim kaffisopa sem eru svo
vænir að líta inn til manns.
– Í öllum bænum hafðu ekki fyrir mér. Annars kom ég til að biðja þig að spá
fyrir mér. Sigga Lára, sem er á sömu stofu og ég, sagði að þú værir afbragðs
spákona. Það kæmi hreinlega allt fram sem þú segðir. Hún sagði að ef Þuríður
segði það, þá kæmi það fram.
Sú gamla hló.
– Taktu ekki mark á henni Siggu gömlu. Hún er löngu orðin elliær,
blessunin. En það er velkomið að kíkja í bollann þinn. Taktu samt ekki of
mikið mark á því. Þetta er eins og hver annar leikur. Dægrastytting fyrir gamla
konu að þykjast sjá inn í framtíðina.
Augu ungu konunnar ljómuðu.
– Þakka þér fyrir. Það er svo spennandi að láta spá fyrir sér.
Þuríður stóð upp. Gekk að vaski í einu horninu. Tók ketil og lét renna í
hann vatn.
– Ég helli alltaf uppá með gamla laginu. Það er auðvitað bara sérviska í
mér, gamalli kerlingunni.
Hún tók fram kaffikönnu og lét vænan skammt af kaffi í heimasaumaðan
pokann. Brátt suðaði í katlinum og hún fór að hella á.
– Mikið er lísan þín falleg. Hún blómstrar svo mikið. Öll þessi bleiku blóm.
– Já, mér finnst gaman að blómum. Þau minna mig á gang lífsins. Vaxa og
blómstra. Fegurð þeirra fer eftir því hvernig þeim líður. Mér finnst alltaf sárt
að sjá vanhirt blóm. Ég finn til með þeim.
– Mér finnst líka gaman að blómum. Ég er með lítinn blómagarð heima.
Hann var reglulega fallegur í fyrra. Þar eru fjölær blóm, lúpínur og alpafíflar.
Svo var ég með gardíólur og dahlíur og kryddjurtir, bæði blaðselju og graslauk.
Í vetur keypti ég svo fræ sem ég er búin að sá inni. Nú bíða þau bara eftir að
komast í garðinn og sólina. Ég keypti gullbrúðu og eilífðarblóm. Þau eru svo
falleg.
– Já, víst eru blessuð blómin falleg.