Húnavaka - 01.05.2013, Side 31
H Ú N A V A K A 29
– Ég vona bara að Guðmundur, maðurinn minn, muni eftir að vökva þau
á meðan ég er hér. Það væri sorglegt ef þessir litlu angar lognuðust út af.
Gamla konan varð sposk á svip.
– Ég skal kenna þér ráð. Kristján, maðurinn minn sálugi, hélt því fram að
blóm þrifust best þar sem nóg væri af ástinni. Einhvern tímann var ég með
hawaiirós sem vildi ekki þrífast. Þá sagði hann mér að færa hana inn í
svefnherbergið okkar, þar blómstraði ástarlífið. Og þar blómstraði líka rósin
mín.
Linda hló.
– Jæja, kerlingin, þú leynir á þér. En ég skal muna þetta.
Kaffið var tilbúið. Þuríður kom með fínleg hvít bollapör með grænum
blómamyndum og lagði á lítið kringlótt borð undir glugganum. Innan úr skáp
dró hún svo smákökur í skál og konfektkassa. Hún kom þessu haganlega fyrir
á borðinu. Að lokum sótti hún stóran hvítan bolla.
– Jæja, drekktu nú smálögg úr honum þessum. Svart og sykurlaust. Þegar
þú ert búin, snúðu þá bollanum á hvolf yfir höfðinu á þér og gerðu þrjá hringi
rangsælis og þrjá réttsælis. Svo blæstu í bollann, í kross.
Unga kona gerði eins og sú gamla sagði.
– Svona. Þetta er gott. Ég sé að þú kannt þetta. Nú skulum við láta
bollagreyið þorna á meðan við fáum okkur almennilegt kaffi.
– Það er verst að þú hefur svo mikið fyrir mér.
– Uss, minnstu nú ekki á ósköpin. Ég er fegin að þú komst. Það eru ekki svo
margir sem líta inn. Enda er það varla von. Karlinn minn farinn á vit feðranna
og einkasonurinn býr í Svíþjóð. Hann kemur nú samt á hverju ári og heilsar
uppá mömmu gömlu. Svo er hann líka duglegur að skrifa og senda mér
myndir af börnunum. Já, hann man eftir mér blessaður. Vildi endilega að ég
flytti til þeirra. En ég vildi það ekki. Best að vera þar sem maður er vanur og
bíða þar eftir að gefa upp öndina.
Þær drukku kaffið og Linda borðaði meðlætið.
– Áttu mörg barnabörn.
– Ég á fjögur. Hraust og vel gefin. Svo er guði fyrir að þakka. Ég er ánægð
með þau og soninn. Tengdadóttir mín er líka indælismanneskja. Hún er sænsk
en auðvitað er hún jafngóð fyrir það. Hún er alltaf reglulega hlý við mig.
Það lækkaði í kaffibollunum. Þuríður dró fram gamla ljósmynd í gylltum
ramma.
– Þetta er Kristján, maðurinn minn. Hann var sjómaður hér í plássinu. Nú
eru fimmtán ár síðan hann dó. Við vorum hamingjusöm. Þetta var góður karl
sem ég átti. Þegar við settumst að hérna, þá voru aðeins átta hús fyrir utan
verslunarhúsið. Við vorum líka lengi með nokkrar ær. Ég hugsaði nú aðallega
um þær. Mér fannst það tilheyra, ég er nefnilega alin upp í sveit. En Kristján
var góður sjómaður.
– Þú hlýtur að sakna hans óskaplega.
– Já, auðvitað en ég er sátt við lífið. Þegar maður er orðinn svona gamall,
eins og ég er, þá er dauðinn nánast daglegt brauð. Vinir manns, kunningjar og