Húnavaka - 01.05.2013, Page 32
H Ú N A V A K A 30
ástvinir, sem maður ólst upp með, eru margir hverjir horfnir á braut. Ég geri
mér grein fyrir því að kannski er ég næst í röðinni, sem betur fer þá veit maður
ekki hvenær kallið kemur eða hversu mikið er eftir af kertinu manns. Mér
finnst stundum að við hérna á ellideildinni séum eins og sjúklingar á biðstofu.
Séum búin að taka númer og bíðum eftir að verða kölluð til. Hér áður fyrr
héngu spjöld á veggjunum og þá tók maður númer þegar maður fór til læknis.
Það var ekki hægt að hringja og panta tíma eins og nú er gert. Æ, fyrirgefðu
ruglið í mér. Við erum stundum svona þessi gömlu, mösum allt of mikið. En
bollaskömmin hlýtur að vera orðin þurr.
Unga konan brosti en sú gamla náði í bollann. Hún leit sem snöggvast í
hann á leið sinni í stólinn.
– Ja, sko. Ekki er lauslætinu fyrir að fara hjá þér, vinkona. Hún settist og
rýndi í bollann. Unga konan beið spennt.
– Jæja, hvað sérðu svo?
– Svona, svona, ekkert bráðlæti. Ég verð að fá að átta mig á þessu. Það
kemur.
Hún velti bollanum þegjandi á milli handanna. Vissi varla hvað hún átti að
segja. En það sem hún taldi sig sjá olli henni miklum sársauka. Hvað var hún
að gera með að rýna í bolla? Betra var að sleppa því og vita minna. Vonandi
var henni farið að förlast. Hún vildi ekki trúa því sem hún taldi sig sjá. Eftir
myndunum í bollanum sýndist henni að hið óumflýjanlega kall myndi koma
til þessarar ungu konu áður en langt um liði. Það gat bara ekki verið. Hún var
ung, björt og vingjarnleg. Það gat ekki verið að lífið væri svona óréttlátt.
Þuríður fann til sviða fyrir brjósti sér. Hún hlaut að sjá eitthvað vitlaust. En
það versta var þó að oftast hafði hún rétt fyrir sér. Hana langaði mest til að
leggja þennan bolla frá sér og segjast engu geta spáð. Hún leit upp og horfði í
andlit ungu konunnar. Fullt af eftirvæntingu og gleði. Þuríður ræskti sig. Hún
mátti alls ekki láta sjá að sér væri brugðið. Eitthvað yrði hún að segja.
– Jæja, ég sé bóndabæ. Það er örugglega heimili þitt en ég held samt að þú
hafir alist upp í kaupstað. Sennilega dálítið stærri en hérna. En það er bjart
yfir bænum þínum. Svo eru hérna dýr. Kannski býrðu með loðdýr. Hjónabandið
er hamingjusamt. Og ég sé dökkhærðan mann með tvo litla drengi. Dökkhærða
eins og föðurinn. Annar er dálítið stærri. Svo held ég að það sé ein manneskja
enn á bænum. Kona, dálítið fullorðin. Þuríður leit rannsakandi á ungu konuna
en hún skellihló.
– Þú ert makalaus. Þetta er allt saman rétt. Vantar bara að þú segir mér
nöfnin á fólkinu. En sérðu bakveikina? Heldurðu ekki að það fari að lagast?
Gamla konan brosti dauft. Bakveiki eða eitthvað annað. Ójú, hún sá það
allt of vel.
– Já, ég sé að þú ert eitthvað veik. Verður kannski dálítið mikið veik um tíma
en svo batnar það fullkomlega og eftir það verður allt gott.
Linda brosti enn.
– Vonandi ertu sannspá. Ég er búin að fá meira en nóg af þessum skollans
verk. En sérðu garðinn minn?