Húnavaka - 01.05.2013, Page 47
H Ú N A V A K A 45
eru bara almennt bönnuð á eyjunni. Þar eru einungis rafknúnir bílar eða
farartæki sem flytja vörur í verslanir, taka rusl og annast annað sem þéttbýll
ferðamannastaður þarf á að halda.
Uppi á hæðinni fyrir ofan Marina Grande var komið í bæinn Caprí, hann
er eins og söðull í skarði sem liggur milli hafnanna Marina Grande og Marina
Piccola. Eyjan Caprí er að því leyti til lík meginlandinu að það má líkja henni
við stígvél. Það er að vísu dálítið kálfameira en Ítalíuskaginn og teygir fótinn
betur fram. Í þessari myndlíkingu er Marina Grande neðst á sköflungnum og
snýr í norður en Marina Piccola neðst á kálfanum fyrir ofan hælinn á móti
suðri.
Þegar komið er upp í bæinn blasa við fallegar þröngar götur með glæsi-
verslunum, hótelum og veitingastöðum. Leiðsögumaðurinn leiðir okkur beint
inn í gegnum bæinn og stoppar á nokkrum stöðum og segir okkur sögur og
útskýrir byggingar og annað sem fyrir augu ber. Örugglega allt mjög fróðlegt
en fullkomlega óskiljanlegt
þeim sem ekki eru inn-
vígðir í spænska tungu. Á
meðan tökum við Íslend-
ingarnir myndir og njót-
um sífellt betra útsýnis því
rigningardrunganum er
smám saman að létta.
Sam fellda rigningin á
megin landinu er orðin að
stöku skúrum og smám
saman birtir til.
Gógó, sem hafði verið
hrollköld og föl eftir sjó-
ferðina, er líka smám
sam an að ná sér og höfuð-
ið komið betur upp úr hálsmáli peysunnar. Þegar við komum á útsýnisstaðinn
yfir suðurströndina, hátt uppi á klettabrúnunum yfir „Görðum Ágústusar“ er
hún greinilega alveg komin í lag því myndavélin er farin að ganga viðstöðulítið
og gleypir í stafrænar geymslur sínar útsýnið yfir klettabyggðina, ströndina þar
sem blátt hafið og ljósleitt bergið mætast í nánast 90° horni, hlykkjóttan
Kruppsveginn þar sem hann er höggvinn í bergið fyrir neðan, blómaskrúðið í
garðinum, hvítar stytturnar, húsin og fólkið. Klettarnir, sem eyjan er gerð úr
og klettadrangarnir úti fyrir ströndinni sem rísa þverhníptir úr hafinu, minna
á Dolomitafjöll Alpanna.
Garðar Ágústusar eru byggðir fram á brún slíkra kletta og eru endurgerðar
minjar frá tíma keisarans sem hafði eyjuna sem sumardvalarstað og til hvíldar.
Útsýnispallurinn hefur líklega verið gerður fyrir ferðamenn en ber eins og
margt annað þarna vitni um einstaka smekkvísi í að láta hið manngerða og
það náttúrulega hljóma saman. Það er eitthvað við þetta allt sem gefur því blæ
ævintýranna.
Capri - Garðar Ágústusar.