Húnavaka - 01.05.2013, Page 76
H Ú N A V A K A 74
JÓHANNA HELGA HALLDÓRSDÓTTIR, Brandsstöðum:
Stúlkan með karmað
Ég vaknaði upp í nótt við góðu návistina þína
og naut þess svikult augnablikið meðan höfginn varði.
Þegar síðan draumavofan þessi tók að dvína
döpur eftir ganginum ég fálmaði og starði.
Í hjarta mínu skuggalega skelfir þessi máttur
sem skaut þar fræjum ástarinnar forboðnu og ljúfu,
umturnaði heimi mínum, þannig var þinn háttur,
heilluð dróst ég með þér inn á karmalöndin hrjúfu.
Í blóði mínu söngst þú og seiddir alltaf meira,
ég sofnaði í veröld þinni, örmagna af gleði.
Á engan vildi hlusta, bara karmahjólið keyra,
konungurinn draumalanda lífi og dauða réði.
Í svikavefinn fangaður var sumarfuglinn ungi
sem flaug á vindavængjunum, út um víðan geim.
Fljótt hann kom að óvörum sá ofboðslegi þungi
þegar alheimurinn hrundi og ég komst ekki heim.
En kærleiksfræin viðkvæmu þau litla vökvun fengu
og visnuðu í hjartahólfi stelpunnar með karmað,
þau lifa samt við æðasláttinn, næstum því á engu,
þau engjast vegna tilveru sem aðeins get ég harmað.
Mér fannst þú kominn aftur og kysstir mig í leyni,
fann kyrrð í sálum okkar, sem tvinnuðust í eitt.
Í draumnum varstu elskhuginn, sá allra besti, eini
sem áttir allar veraldir en að lokum ekki neitt.
En glaumurinn og firringin þau tóku þig að fjötra,
þú fórst í annan veruleika, sem hér átti enga stoð,
og þegar ég kom nálægt þér af reiði fórstu að nötra
því nútíminn hann hafnaði og fann sér önnur goð.