Húnavaka - 01.05.2013, Page 79
H Ú N A V A K A 77
disk og setti við bakdyrnar og hugðist þannig komast að því í eitt skipti fyrir öll
hver væri sökudólgurinn.
Daginn eftir var kjötbitinn horfinn. En hann hafði komist að nokkru at-
hyglis verðu. Sökudólgurinn var köttur. Hann var alveg viss því sporin í kring-
um tóman diskinn voru greinilega kattarspor. Bjargfastur fylgdi sporunum eftir
og sá að þau lágu að holu í snjónum við húsvegginn. Hann hafði ekki tekið
eftir henni fyrr.
Bjargfastur var svo sem ekkert ánægður. En ekki bar á öðru, það virtist vera
kominn villiköttur sem hafði hreiðrað þarna um sig. Hann tók skóflu, mokaði
dálitlu af snjó í burtu og skoðaði síðan inn í holuna. Hún lá að húsveggnum
og áfram meðfram honum svo langt sem hann sá. Milli húsveggjarins og
skaflsins hafði myndast smá bil, líklega vegna velgjunnar frá veggnum. Þarna
virtist Kisi hafa hreiðrað um sig.
Bjargfastur mokaði betur frá þannig að hann sá nú alveg meðfram veggnum
en engin hreyfing. Hann vonaði að kattarkvikindið væri á bak og burt. Annars
var honum vel við ketti, hafði einu sinni átt kött og haft af honum ánægju.
Hann fann lykt af kattarhlandi og bölvaði með sjálfum sér. Þetta boðaði ekki
gott. Hann tróð snjó í holuna og fór inn og sagði Dýrleifu tíðindin.
Næstu daga sást ekkert til Kisa. Bjargfastur var farinn að halda að hann
hefði gefist upp á vistinni og farið burt. En ekki var það svo vel, því einn
morguninn hafði ruslapokinn verið heimsóttur. Kisi var kominn á kreik á ný.
Kattarskömmin gerði svo sem ekkert af sér en að vita af honum þarna fyrir
utan fór í pirrurnar á Bjargfasti. Honum var ekkert um þetta gefið. Enginn
hafði fram til þessa séð Kisa og ekki var vitað hvernig hann leit út.
Meðan þessu fór fram hafði Bjargfastur farið nokkrum sinnum til rjúpna en
orðið lítið ágengt. Einn daginn fór hann enn á ný til fjalla og nú skyldi reynt
til þrautar við þá hvítu.
Hann kom heldur hróðugur heim og hafði fengið sex rjúpur. Þarna var búið
að redda jólamatnum. Þungu fargi var létt af Bjargfasti þegar hann hengdi
rjúpurnar upp undir þakskeggið við bakdyrnar. Kisi var ekki ofarlega í hans
huga þá stundina. Dýrleif horfði ánægð á mann sinn og sagði: ,,Þetta gastu
eftir allt saman.“
Þegar Bjargfastur kom út morguninn eftir trúði hann ekki sínum eigin aug-
um. Rjúpnafiður út um allt. Ein rjúpa alveg horfin og önnur nánast uppétin.
Bjargfasti féllust hendur. Bölvaður ódámurinn hann Kisi, þetta var hans
verk. Um það var Bjargfastur viss. Að stela frá honum jólamatnum var einum
of mikið. Kattarfjandinn.
Upp frá þessum degi snerust viðskipti þeirra Bjargfastar og Kisa upp í
heilagt stríð. En það var sama hvað hann gerði, Kisi hafði alltaf vinninginn
enda afar var um sig. Kisi passaði það vel að fara ekki langt frá holunni sinni
og gat alltaf skotist inn í hana ef einhver var á ferðinni. Bjargfastur hafði svo
sem reynt að troða upp í holuna en það var alveg sama, Kisi komst alltaf út.
Það var heldur ekki örgrannt um að hann grunaði Dýrleifu konu sína um
að hafa skotið einhverjum ruðum í holuna til Kisa um jólin en hann hafði svo
sem ekkert fyrir sér í því.