Húnavaka - 01.05.2013, Page 80
H Ú N A V A K A 78
Bjargfastur var nú oft búinn að sjá Kisa. Þetta var bröndóttur köttur og
virtist ungur að árum. Honum var illa við þennan kött. Af hverju þurfti Kisi
endilega að velja hans hús til vetursetu? Hann var búinn að reyna að sitja fyrir
honum mörgum sinnum en það var eins og Kisi vissi á hverju hann ætti von,
hann lét ekki sjá sig þegar Bjargfastur beið fyrir utan holuna með barefli til að
lumbra á honum. Gekk svona á um hríð.
Þannig háttaði til að hús Bjargfastar og Dýrleifar stóð nokkuð afsíðis og það
hafði svo sem hvarflað áður að Bjargfasti að nota byssuna, sem hann átti, til
að ganga frá Kisa en ekkert orðið úr því. Hann renndi grun í að Dýrleif yrði
ekkert lamb að leika sér við ef hún vissi um þá fyrirætlan.
Þá gerðist það fyrir nokkrum dögum að Bjargfastur vaknaði óvanalega
snemma og fór ofan að hita sér kaffi. Hann gáði til veðurs meðan vatnið í
kaffið var að hitna og sá sér til mikillar undrunar hvar Kisi stóð langt úti á
skafli og var að sleikja sólskinið.
Bjargfastur hikaði ekki eitt augnablik, læddist hljóðlega fram í geymslu, sótti
byssuna og hlóð hana rólega. Hann fór fram í dyr, opnaði snöggt hurðina og
miðaði byssunni.
Kisi brá hart við, stökk til og ætlaði að skjótast í holuna sína en til þess þurfti
hann að fara nær Bjargfasti sem stóð tilbúinn að hleypa af. Hann snarstansaði
og í augnablik horfðust þeir í augu. Kisi vissi að leikurinn var tapaður.
Bjargfastur sá hvernig slaknaði á öllum vöðvum Kisa. Á örskotstundu flugu
hugsanir í gegnum huga hans. Átti hann að skjóta Kisa? Hvað hafði hann til
saka unnið? Jú, kattarskömmin hafði hnuplað frá honum rjúpunum, rifið og
tætt ruslapokana, migið og skitið út um allt.
En kattarræfillinn hafði lifað af einn versta vetur í manna minnum og það
var afrek út af fyrir sig. Var sanngjarnt að skjóta Kisa loksins þegar veturinn
var á enda og vorið að koma. Bjargfastur lét byssuna síga og þarna kvöddust
þeir í hljóði, Kisi og hann, fullkomlega sáttir. Kisi skaust inn í holuna og síðan
hafði Bjargfastur ekki séð hann því morguninn eftir var Kisi fluttur.
Bjargfastur fleygði frá sér kótelettubeininu og tautaði á ný: ,,Ræfils tuskan“,
um leið og hann gekk inn til Dýrleifar, konu sinnar.
❄❄❄