Húnavaka - 01.05.2013, Page 85
H Ú N A V A K A 83
Ketilríður var systirin í hópnum og örlögin skákuðu henni heim í
Langadalinn. Skipti engu þó hún flytti með móður sinni upp á Laxárdal og
eignaðist síðar dótturina Ragnheiði með Árna stutta Jónssyni sem hún bjó
með á Tungubakka, koti í Geitaskarðslandi uppi á Laxárdal. Aðra barnsmóður
hafði Árni hjá sér á Tungubakka en sú flutti burtu þegar þau Ketilríður giftust
1829. Þá var dóttirin Ragnheiður 4 ára og hálfbróðirinn Friðgeir 2 ára og ólst
upp hjá föður sínum og stjúpu sem hann skírði síðar dóttur sína eftir. Friðgeir
bjó ásamt föður sínum á Mörk og síðar í Hvammi á Laxárdal og orti merkar
bændavísur um Hlíðhreppinga. Feðgarnir, Árni og Friðgeir, eru komnir að
Litla-Vatnsskarði 1840 en þá er Ketilríður flutt að Geitaskarði þar sem hún
dvelur til æviloka 1857. Í Húnvetningasögu Gísla segir um Árna hvítkoll, að
hann hafi komið Ketilríði konu sinni að Geitaskarði og gaf Lárusi hreppstjóra
með henni, „hafði Árni jafnan vel við hana farið síðan hún varð vanheil af
barnburði og hún var ófær orðin til hjónskapar.“
Árni hvítkollur Jónsson, sem líka var kallaður stutti, er söguefni fyrir ýmsar
sakir. Hann bjó í fyrstu utan til á Laxárdal, stundum vinnumaður, oftast bóndi
og í lok búskapar síns tekur hann þátt í margbýlinu á Mörk fáum árum áður
en jarðeigendur, Jón í Stóradal og Erlendur Pálmasynir, fengu jörðina fjöl-
skyldu Erlendar Guðmundssonar og losuðu hana þannig úr „margbýlis
fátækt“ árið 1867 en Árni gersemi Árnason fæðist á Mörk 1861.
Natan Ketilsson var yngri bróðir Guðmundar, milli þeirra Ketilríðar í
systkinaröðinni en margar bækur og skáldverk hafa verið skrifuð um örlög
hans, líf og samband hans og ástkonu hans, Skáld-Rósu. Tvær dapurlegar
vísur þeirra fylgja hér vísum Guðmundar á Illugastöðum.
Eg er þrotinn allskonar
yndisnotum farsældar
elfum skotinn angistar
örvum skotinn bölvunar.
Natan Ketilsson Illugastöðum
Enginn lái öðrum frekt
einn þó nái falla.
Hver einn gái að sinn sekt
syndin þjáir alla.
Rósa Guðmundsdóttir – Skáld-Rósa
Um Rósu orti Guðmundur:
Ýmist hringa geigvæn Gefn
gulls mig stingur nálum
eða syngur að mér svefn
í hendingarmálum.
Guðmundur Ketilsson Illugastöðum