Húnavaka - 01.05.2013, Page 89
H Ú N A V A K A 87
glötun þær fornar leifar sem enn kunna að finnast. Og verði þessi útgáfa á hinni gömlu
lýsingu Þingeyra eftir síra Ólaf til þess að hvetja einhverja til að safna því sem hægt er og
til að rita meira um það höfuðból eða aðra merka íslenska staði, þá hefur þessi ritsmíð náð
tilgangi sínum.
*) Svo segir Einar Bjarnason í fræðimannatali sínu. Dr. Valtýr Guðmundsson hefur góðfúslega leyft mér að
nota eiginhandarritið.
Lýsing á Þingeyrastað
Nú vil ég ekki láta það hjá farast að minnast þess hvernig umhorfs var í
Þingeyrastað þau fimm ár er ég ólst þar upp.
UM HÚSASKIPUN Á STAÐNUM.
Inngangur staðarins var með dönsku byggingarlagi, hlið nær því þriggja faðma
á breidd og svo hátt að ríðandi maður gat rétt aðeins seilst með svipu yfir
bitann, sem lá á tveimur sterkum dyrastólpum. Á báðar hliðar stólpunum voru
festar við þá tvennar vængjahurðir með þremur járnhjörum og voru þær
opnar allan þann tíma er ekki þurfti snjóa að vænta. Milli þessara tveggja
vængjahurða voru einar dyr minni en þó svo stórar að meðalstór vagn gat farið
þar í gegn og má þó vera, að ökumaður hafi orðið að beygja sig lítið eitt, það
man ég ekki með vísu. Hægra megin við hliðið, rétt við hliðstólpann, var
mjölskemma. Var þar geymt niðri mjöl og korn handa staðarfólkinu en uppi á
lofti margra hundraða virði af skreið. Við skemmuna var áfast lítið hús, fyrir
hæns, endur, gæsir o. s. frv. Útveggirnir á þessum tveimur húsum voru úr torfi;
þau sneru bæði móti suðri.
Á austurhliðinni var því næst timburhús með norsku sniði, um það bil 21-24
álna langt, en rúmlega 7-8 álna breitt og var því fyrir komið sem nú skal greint.
Norðan til í garðinum var lítil forstofa, með fjórum hornum og uppdregin;1)
má enn sjá samskonar forstofur sumstaðar í Noregi, já, seint í fyrra haust sá ég
sjálfur bæði í Kleven og í Mandal í Noregi þessháttar forstofur. Inn úr
forstofunni gengu tvennar dyr, önnur inn í sjálft timburhúsið, sem var þannig
útbúið: Suðurhelmingurinn var stássstofa með stóru, kringlóttu borði, gólfföstu;
þar var skammt á milli glugga á báðar hliðar og gaflinn móti suðri.
Við dyrnar, vinstra megin við innganginn, var skrautlegt rúm sem ætlað var
tignustu gestum; rúmhliðin sneri upp að þilinu; andspænis því rúmi var annað
rúm hinu megin í stofunni fram með veggnum og stórt skatthol milli rúmsins
og hurðarinnar. Fram af stofunni var þiljað þvert yfir breidd hússins í miðju,
var á vesturhliðinni dagleg stofa svo kölluð, fram að forstofunni, og eldhúsið,
þar sem voru tvö borð með bili á milli, bekkir og stólar og mátti þó gera eitt
borð úr þeim er margir voru þar saman komnir í einu. Í hinum partinum á
austurhliðinni var fyrst skrif- og lestrarstofa, því næst svefnherbergi með tveim
rúmum, sínu hvoru megin, því næst íveru- og saumastofa kvenna. Bæði í
daglegu stofunni og kvennastofunni voru bíleggjarakakalofnar og voru það
einustu þesskonar ofnar þar í sýslunni á mínum tíma, nema máske kann að
hafa verið þesskonar ofn hjá Bjarna sýslumanni Halldórssyni í Víðidalstungu,