Húnavaka - 01.05.2013, Page 92
H Ú N A V A K A 90
landfógeta, en nú mun þar byggt skrautlegt steinhús. En að því er allan staðinn
og útbúning hans snerti var ekki hægt að jafna byggingunni þar á við Þing-
eyrastað. Mest var þó varið í klausturkirkjuna sem var fegursta kirkjan á
landinu og skal ég segja meira frá henni síðar. Fyrir utan garðinn var hús er
nefndist smiðja og vann þar járnsmiður; (það var utan garðs) til þess að
eldurinn skyldi ekki granda staðarhúsunum, ef svo kynni til að bera að
kviknaði í smiðjunni. Þá var annað prýðilegt hús þar sem húsfógetinn eða
umboðsmaður klausturhaldarans var að deginum til á sumrin til þess að líta
eftir vinnufólkinu.
Rétt fyrir utan hliðið voru sléttar traðir, svo breiðar að 6 til 8 hestar gátu
gengið þar samhliða, með torfveggjum beggja megin, út á túnsporðinn. Túnið
var girt að sunnan og til suðvesturs og eins voru girðingar frá suðaustri til
norðvesturs og svo frá norðvestri til norðausturs en frá norðaustri til suðausturs
voru engar girðingar. Túnið var allþýft sumstaðar og jarðvegur sumstaðar
leirkenndur og ófrjór, sem Gottrup sálugi lögmaður gat ekki komið við að bæta
áður en hann lést, sem þó virðist gjörlegt ef hygginn og bráðvirkur eigandi býr
á jörðinni. En mestur hluti túnsins var slétt og grasgefið í góðum árum.
Sá mikli búmaður Láritz Gottrup hélt fjölda vinnufólks og hafði mikinn
búpening á tveimur klausturjörðum til léttis fyrir staðinn svo að staðartúnið
fékk á hverju ári ríkulegan áburð. Ég man eftir því eitt árið sem ég var þar,
1735 ef mig minnir rétt, að þá fengust af túninu 5 stór hundruð hestar og
tuttugu af bestu töðu, það er alls 620 hestar, á hverjum hesti tvær sátur, sín
hvoru megin, en hver sáta á 6 til 7 eða stundum fleiri lýsipund. 30 hestar er
reiknað að sé nóg handa mjólkurkú um vetur, ef hún er snemmbær, en sé hún
síðbær þá má gefa henni helming af góðri töðu en helming af útheyi.
Auk túnsins átti klaustrið tvær smáeyjar og eina stóra í Húnavatni, sem
liggur nálægt klaustrinu að austan, fram að sjó norðan til en vestan við það er
stórt saltvatn er kallast Vesturhóp og er þaðan mjó afrás í sjó út, fer þar oft upp
mergð af laxi, sem gengur upp í næstu á, Víðidalsá. Silungar eru og veiddir í
Húnavatni sumar og vetur; á vetrum eru stundum höggnar vakir í ísinn og
dorgað með önglum og eru maðkar eða silungaaugu notuð að agni.
Gottrup lögmaður lét reisa kirkjuna frá grunni. Friðrik konungur fjórði,
lofsællar minningar, gaf timbrið í hana en lögmaður hélt á sinn kostnað
timburmann og snikkara, annan danskan, hinn íslenskan, sem hafði lært í
Kaupmannahöfn. Ef ég man rétt, voru 10 stoðir hvoru megin til að halda uppi
byggingunni, hver um sig hér um bil tveir faðmar að ummáli, sívalar allar.
Kirkjan var allbreið neðan til en uppdregin og lágt timburþak, tvöfalt allt inn
að gluggunum; þá kom yfirbygging (sem þeir voru í settir), allt að 3 álnum á
hæð og var þar yfir tvöfalt þak og prýðisfallegur turn úr timbri mitt upp úr
kirkjunni sem þótti mjög sjaldgæft. Allar stoðir og bjálkar voru úr besta timbri
og eins margar stoðir og voru að innan beggja megin, eins margar voru beggja
megin að utan, skorðaðar milli steina á kirkjugarðinum svo að fellibyljir skyldu
ekki verða kirkjunni að grandi eða varpa henni um koll, eins og einu sinni
skeði á Hólum síðast á dögum þess ágæta biskups, herra Guðbrands Þorláks-
sonar, er hann lá í kör.