Húnavaka - 01.05.2013, Page 96
H Ú N A V A K A 94
MAGDALENA BERGLIND BJÖRNSDÓTTIR, Blönduósi:
Á föstudagskvöldi
Hún var ömurleg. Ömurleg! Spegillinn laug ekki. Hún var feitasta, ljótasta og
pottþétt heimskasta stelpan í öllum heiminum.
Hún gæti aldrei farið í þetta afmæli. Hún átti ekki einu sinni almennileg föt
til að fara í, ekkert sem hún passaði í – og var ekki ömurlegt... svona eins og
hún. Hún færi ekki neitt enda var henni örugglega bara boðið af því öllum
stelpunum í bekknum var boðið, tvíburarnir vildu ekki hafa hana í afmælinu
en urðu að hlýða mömmu sinni og eins og alltaf gerðu þær eins og mamma
þeirra sagði – þegar þær vissu að engrar undankomu var auðið.
Mamma þeirra ætti að vita hvernig þær eru í skólanum, fullkomnu
dæturnar hennar, eiturnöðrur - sem myndu sóma sér vel í hvaða dramaþætti
sem var.
Stór himinblá augun fylltust af tárum sem láku niður magrar kinnarnar og
bleyttu koddaverið hennar.
- - - - -
„Ég vissi það! Ég vissi það!“ Hún stökk upp úr stólnum og hrópaði upp yfir sig
í einlægum fögnuði en var ein um að fagna. Hún hafði verið að horfa á
amerískan fræðsluþátt þar sem fullyrt var að Elvis væri á lífi. Að dauði hans
hafi verið sviðsettur til að losa goðið undan frægðinni sem var að ganga af
honum dauðum, alls kyns sannanir taldar upp, meðal annars stafsetningarvilla
á legsteini hans. Þetta var alveg öruggt, hann var enn á lífi.
Hún steytti hnefann sigri hrósandi í átt að sjónvarpstækinu, lagði frá sér
poppskálina og stóð upp til að biðja um meira gos. Á leið sinni í eldhúsið
kallaði hún glaðlega inn í vaktherbergið: „Elvis lifir“! Einu viðbrögðin sem
hún uppskar voru dauflegt augnaráð syfjaðs háskólanema sem greinilega hafði
engan áhuga á Elvis. „Skrítið fólk hér“, hugsaði hún með sér.
- - - - -
„Gáðu inn í stofu“ kallaði mamma hans rámri röddu frá svefnherbergi sínu,
líklega var hún rétt að vakna núna, ef hún var þá vakandi. Hann leit yfir rýmið
sem hún kallaði stofuna og hryllti sig svolítið. Hvergi nema í þessu húsi væri
hægt að kalla þetta herbergi stofu. Hvernig datt henni í hug að hann fyndi
eitthvað til að borða þarna inni? Sígarettustybban var svo mikil að hún var súr
og hann sveið í augun, öskubakkarnir höfðu ekki verið tæmdir alla vikuna og
varla sást í borðplötuna fyrir flöskum og rusli. Pabbi hans lá í sófahræinu,