Húnavaka - 01.05.2013, Síða 97
H Ú N A V A K A 95
meðvitundarlaus eftir að hafa eytt síðustu tveimur sólarhringum í drykkju með
félögum sínum. Hvað hann hataði útborgunardaga!
Hann yrði að fara eitthvað annað til að finna kvöldmat, hann ákvað að
amma í Daló myndi bjarga honum núna líkt og svo oft áður.
Vonandi var hún heima... Auðvitað var hún heima að bíða eftir honum...
Hann varð að trúa því til að komast frá þessu, út af þessu heimili – sem var
ekkert heimili. Er ekki heimili staður þar sem manni á að líða vel? Þetta var
ekki heimili og hafði ekki verið í langan tíma.
Hvað hann hlakkaði mikið til næsta sumars þegar hann gæti farið, farið í
burtu, eins langt í burtu frá þessu fólki sem kallaði sig foreldra hans. Og hann
kæmi aldrei aftur.
- - - - -
„Ég trúi þessu ekki!“ Hún sat á baðbrúninni og horfði tárvotum augum á hvíta
stautinn sem hún hélt á. Hvítur stautur með æpandi rauðum + sem sýndi að
lífi hennar var hér með lokið. Þessi helvítis stautur! Fjandinn sjálfur. Hvað
myndu pabbi og mamma segja? „Þau drepa mig“, stundi hún upphátt. Jobbi,
hvað myndi hann segja? Oh, að hún hefði bara sagt nei, eins og hana langaði
í raun. Það var bara svo erfitt að segja nei þegar allir aðrir sögðu já. Eða
sögðust alla vega segja já... Átti þetta að vera hægt eftir bara eitt skipti?
Henni var orðið hrollkalt inni á þessu svala baðherbergi en gat sig ekki
hrært. Ef hún bara hefði... Hún var í djúpum skít! Hvað nú?
Augun hvörfluðu um herbergið og staðnæmdust við rakhníf pabba hennar
við vaskinn. Það væri svo auðvelt að enda þetta allt saman. Þá þyrftu þau
gömlu í það minnsta ekki að gera það...
Tíminn leið og hún fann hvernig hún var öll að stirðna af kyrrsetunni en
hugurinn var vel virkur. Hún hafði komist að niðurstöðu, hún hafði tekið
ákvörðun.
Hún lygndi aftur augunum og dró andann djúpt, stóð upp – og gekk út af
baðherberginu. Á leið fram leit hún á hnífinn. Ekki núna.
- - - - -
Bla, bla, bla... Hann gjammaði upp í foreldra sína um leið og hann gekk út úr
eldhúsinu eftir að hafa rétt kíkt þar inn.
Foreldrar hans sátu við matarborðið og borðuðu einhvern ógeðs-fiskrétt – á
föstudagskvöldi! Hverjum dettur í hug að bjóða upp á fisk á föstudagskvöldi?
Fávitum, bara fávitum!
Og enn og aftur skyldu þau fara að þvaðra eitthvað um að hvað fiskur væri
hollur og góður fyrir hann og að mörg börn í heiminum fengju ekkert að
borða og skammturinn hans myndi áreiðanlega duga til að metta nokkur
vannærð börn í þriðja heiminum. „Bla, bla, bla... Kannski þið gefið þeim bara
ykkar skammt líka svo þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af aukakílóunum sem
honum fylgja“, gusaði hann svo út úr sér rétt áður en útihurðin skall að hælum
hans. Hann stoppaði örstutta stund við dyrnar og bölvaði í hljóði, hann hafði
gengið of langt og hann vissi að það yrði erfitt að líta í augun á þeim á eftir.