Húnavaka - 01.05.2013, Page 100
H Ú N A V A K A 98
REYNIR HJARTARSON, Akureyri:
Það er ekkert grín að lenda á
sjúkrahúsi
Það er mikil blessun að sama aðferð er ekki notuð á menn og skepnur þegar
kemur að heilsufarsmálum, ég get svo sem vel sætt mig við að dýralæknar
þjónusti mig og hef reyndar góða reynslu af því. En það er hinsvegar það sem
upp kemur þegar tilvikin reynast erfið og talið er að það svari varla kostnaði
að reyna að koma viðkomandi til heilsu, þá eru skepnurnar aflífaðar en við
förum til sérfræðinga. Það var einmitt þangað sem ég fór þegar lappirnar
hættu að bera mig og brennivín dugði ekki lengur til að minnka verkina.
Leiðin lá sem sagt á bæklunardeild sjúkrahússins á Akureyri
Oftast byrjar hörmungarganga þeirra sem koma til O-deildar, eins og
bæklunardeildin er kölluð, á því að heimilislæknir þeirra er orðinn verulega
þreyttur á viðkomandi sjúklingi og vísar honum til bæklunarsérfræðingsins
með misgáfulegum athugasemdum um hvað geti verið að, sé það ekki augljóst.
Þannig var það allavega hjá mér.
Gömul kona í Húnavatnssýslu sagði einu sinni að heilbrigður maður sem
færi til læknis þyrfti á guðs hjálp að halda, ég er að byrja að skilja núna hvað
hún átti við.
Það er ekki að orðlengja, að það var tekin ákvörðun um að saga sundur á
mér löppina og snúa henni eitthvað og láta gróa þannig saman aftur en það
er eiginlega algert aukaatriði hvað að mér var, eða er, því ég ætla fyrst og
fremst að tíunda lífið á deildinni burtséð frá sjálfum mér. Enda hef ég lofað
sjálfum mér að vera bæði sanngjarn og sannorður um það sem þarna gerist.
Það fyrsta sem ég meðtók við skoðanir læknanna var að ég færi aldrei meira á
hestbak og hefði átt að vera búið að banna mér það fyrir löngu. Reyndar var
margbúið að því en ég gleymdi því jafnharðan.
Einum til tveim dögum fyrir innlögn eru allir aðgerðarsjúklingar látnir
mæta í svokallaðar rannsóknir, þar sem í raun ekkert gerist. Maður mætir með
birtingunni á spítalann og fer í blóðrannsókn, þar er alltaf sagt: „Þetta hefur
ekkert breyst síðan síðast.“ Þá er næst tekið hjartalínurit en það týnist gjarnan
og virðist enginn hafa áhyggjur af því. Ég held að það sé svipað með
hjartalínurit og jarðskjálftamælingar, það menntar sig fólk til að lesa úr þessum
pappírum sem gefa þó aldrei ákveðna niðurstöðu. Ef talað er við jarð skjálfta-
fræðinga eftir að skjálftar koma fram á mælum þá segja þeir alltaf að annað