Húnavaka - 01.05.2013, Side 102
H Ú N A V A K A 100
og setja upp nál, hún stóð við það en hún minntist aldrei á að hún ætlaði að
gera það í fimm atrennum. Ekki kvartaði ég þótt kominn væri gráti nær af
hræðslu. Þau taka síðan tal saman þarna yfir mér og svæfingalæknirinn
minnist trekk í trekk á STASA og STASI, ég var kannski orðinn eitthvað
skrítinn af lyfjunum en það eina sem mér kom í hug þarna var, að þau væru
að tengja mig Austur-þýsku leyniþjónustunni og rifjaðist þá upp fyrir mér að
foreldrar mínir höfðu í ungdæmi mínu keypt sér Wartburg bíl austan fyrir
tjald. Hart þótti mér að slíkt væri enn í persónulegum upplýsingum um mig,
kominn á efri ár og ég ætti enn að gjalda þess að hafa verið hallur undir
kommúnista sem barn og varð hugsað til Halldórs Laxness og hve hjalið við
kommúnismann hefur fylgt honum. Þó vona ég aldrei fari svo illa fyrir mér,
hvorki látnum né lifandi, að Hannes Hólmsteinn skrifi ævisögu mína.
Loks var ég tilbúinn og settur á örmjóan bekk á skurðstofunni sem mér skilst
að sé svona mjór til að minni hætta sé á að starfsfólk sjúkrahúsanna gamni sér
á þeim ef lítið er að gera. Þetta kann þó að vera helber lygi en ég mundi ekki
þora að eðla mig á svona mjóum bekk, sem hjól eru undir að auki, og getur
spýst hvert sem er ef hnykkt er lostalega á.
Fyrir framan mig var sett grænt tjald þannig að ég sæi sem minnst af því
sem fram fór. Júlíus læknir spjallaði bæði við mig og sérlega þó starfsfólkið
meðan hann var að bardúsa þarna hinu megin við tjaldið og fannst mér fæst
af því sérlega innihaldsríkt. Þegar hann var búinn að setja sögina tvisvar í gang
segir hann eins og stundarhátt við sjálfan sig eða mig: „Var það ekki örugglega
vinstri löppin, Reynir?“
Á þeirri mínútu ákallaði ég Guð minn í fyrsta skiptið þann daginn en
yfirleitt gef ég Guði allan þann tíma sem hann þarf til að sinna sínum málum
án truflana frá mér. „Nei, nei, bara létt grín“, sagði Júlíus þá óðara og hefur
örugglega glott undir grímunni. En það tók ekki betra við því Sigga
skurðstofuhjúkka hélt áfram: „Vertu alveg rólegur, Reynir minn, hann er að
saga hægri ökklann.“ Þá kallaði ég til Guðs míns hið annað skiptið og stundi
upp skælandi: „Það var hnéð sem átti að laga“ en var þó með það bakatil í
hugsunum mínum að djöfull væri ég þó heppinn þrátt fyrir allt að ökklinn væri
hálfónýtur líka.
„Elsku Reynir minn“, sagði Sigga þá, „við erum bara að reyna að láta okkur
finnast gaman í vinnunni, það er talið að þá afkasti maður meira, þetta er
stefna sjúkrahússins“ bætti hún við. Aðgerðinni lauk á tilsettum tíma, löppinni
var pakkað inn eftir kúnstarinnar reglum og það síðasta sem Júlíus sagði við
stelpurnar var „að muna eftir að tjóðra hann við rúmið“ (það er að setja upp
þvaglegg á máli hinna ólærðu).
Næsti áfangi var vöknunin, þar er gott að vera. Stanslaust er þurrkað yfir
enni manns og spurt hvernig maður hafi það þannig að manni finnst maður
vera sá eini í heiminum og svo er fótnudd sem tekur morfíni fram - eða er
allavega gott með morfíni.
Ég var með hangandi slöngur út úr mér hér og þar og þvaglegginn bundinn
við rúmgaflinn svo ekki gat ég strokið þó mig langaði til þess. Og ég fékk tæki
til að skammta mér morfínið sjálfur. Það frelsi notaði ég til fulls. Þetta hefði ég