Húnavaka - 01.05.2013, Side 104
H Ú N A V A K A 102
Einn læknirinn heitir Bjarki og eldri liðskiptakonurnar á deildinni kalla
hann allar ,,unga lækninn“. Ég get þó fullyrt að ef hann hefði lært til þess að
verða flugmaður væri hann hættur sakir aldurs. Mér finnst þó að það hljóti að
þurfa meiri lagni og nákvæmni til að púsla saman litlafingri á barni en lenda
flugvél á þriggja kílómetra langri flugbraut. En reglur eru víst reglur og vinnu-
reglur lækna hafa aldrei lotið sömu lögmálum og annarra.
Ég var ekki lítið feginn þegar mér var boðið að fara í sturtu. Þess hafði ég
virkilega þarfnast. Ég staulaðist í göngugrindinni fram í enda gangsins þar sem
er hið rýmilegasta bað. Með mér var ein starfsstúlkan til þess að aðstoða mig
og sjá um að allt færi rétt fram og ég færi mér ekki að voða. Þegar við komum
inn á baðið var þar galopinn gluggi og skítakuldi inni. En það er léttvægt fyrir
íslenskan karlmann að þola smá kuldasting miðað við að vera ófær um að baða
sig og þurfa að húka á stól undir sturtunni og aðstoðarkonu með kúst fyrir
framan sig líkt og til stæði að þvo bíl.
Jæja, ég var dreginn úr öllu nema gifsinu sem huldi allan hægri fótinn allt
til nára. Mér varð litið niður um sjálfan mig og sá þá mér til hrellingar að
vegna kuldans og annarra aðstæðna, svo sem minnkandi blóðstreymis, hafði
stolt mitt aldrei verið minna og vesældarlegra og á þetta horfði konan, sem nú
var kominn í upphá gúmmístígvél númer 45 og með alltof stóra svuntu sem á
stóð: one size. Hún stoppaði gleiðbrosandi fyrir framan mig, líkust pólskri
fiskvinnslukonu á Raufarhöfn, horfði á mín helgustu vé og sagði hálfhlæjandi:
„Það er bara eins og maður sé kominn í rækjuvinnsluna á Skagaströnd.“
Þarna féll það litla sem ég átti eftir af karllægu stolti, því í fréttunum nýverið
var sagt frá því að rækjuveiðum við Húnaflóa væri hætt vegna þess hve rækjan
var lítil og ónýtanleg, er furða þó ég hafi brostið í grát, ég bara spyr?
En baðsagan er ekki öll. Það næsta sem konan segir er: „Nú verð ég að setja
á þig fílasmokkinn“ og kom með hólk einn mikinn sem fullkomlega hefði
dugað íturvöxnum fíl en skyldi nú verja hinn gipsaða fót. Sárara gat það ekki
orðið en að horfa á fullorðins fílasmokk á eftir rækjuáfallinu.
Baðdagurinn leið auðvitað til kvölds með þeirri vesöld sem fylgir því að hafa
glatað stolti og reisn, og þó, lengi getur vont versnað, það gerðist þegar
kvöldskatturinn kom. Stúlkan sem hafði baðað mig var að bera til okkar
fóðrið. Þegar kom að mér spurði hún hin glettnasta: „Hvað vilt þú margar
brauðsneiðar Reynir?“
„Bara eina“ mumraði vesældarlega í mér undan sænginni.
,,Heldurðu að þú viljir ekki fleiri?“ spurði hún til baka en bætti svo við
hálfhlæjandi: „Það er rækjusalat ofan á þeim.“
Ég missti lystina á kvöldmatnum og efa að ég borði nokkurn mat framar
sem inniheldur hina fyrirlitlegu skepnu, rækjuna.
Nóttin leið við dapurlegar hugsanir þar sem hinn viðgerði fótur var ekki
mitt mesta áhyggjuefni.
Sól skein að morgni og heimsókn fékk ég með birtingunni frá heimilislækni
mínum, Pétri, en honum er sérlega hugað um vegferð allra sinna sjúklinga og
fylgir þeim glaður eftir, allt til grafar.