Húnavaka - 01.05.2013, Síða 113
H Ú N A V A K A 111
m.a. stund á skrift, réttritun, reikning, ensku, dönsku, Íslands- og mannkynssögu,
náttúrufræði, efnafræði, teikningu, leikfimi, söng, fatasaum, þvott og matreiðslu.
Árið 1900 var ákveðið á fundi sýslunefndar að flytja skólann frá Ytri-Ey á
Blönduós þar sem byggja skyldi nýtt skólahús og hófst kennsla við
Kvennaskólann á Blönduósi í nýju skólahúsi þann 1. október 1901. Á þessum
tímamótum hættu Skagfirðingar þátttöku í rekstri skólans og Húnvetningar
tóku alfarið við.
Aðfaranótt 11. febrúar 1911 brann skólahúsið á Blönduósi. Skólastarfi var
haldið áfram í leiguhúsnæði en strax var hafist handa við byggingu nýs
skólahúss.
Skólaárið 1923-1924 var skólanum breytt í húsmæðraskóla sem starfa skyldi
í níu mánuði. Bóknámsgreinum var fækkað, haldið var áfram að kenna
íslensku, dönsku, reikning, uppeldis-, heilsu- og næringarefnafræði og
búreikninga svo eitthvað sé nefnt. Aukin áhersla var lögð á verknám svo sem
matreiðslu, sauma og vefnað, þvott og ræstingu, að leggja á borð og ganga um
beina. Var skólinn rekinn með þessu sniði þar til hann var lagður niður árið
1978.
Þegar frú Hulda Stefánsdóttir rifjaði upp stofnun Kvennaskóla Húnvetninga
minntist hún á að á þeim tíma sem hann var stofnaður voru miklir um-
brotatímar í þjóðfélaginu og óvenjusterk hugsjónaalda hafi farið um þjóðina á
árunum 1870-1880. Hundrað árum síðar var því eins farið og óhætt að segja
að á árunum upp úr 1970 hafi önnur óvenjusterk hugsjónaalda farið um
þjóðina sem líkt og fyrr hafði í för með sér miklar breytingar á stöðu kvenna.
Námsframboð hafði aukist og aðsókn ungra stúlkna að kvennaskólum landsins
minnkaði stöðugt. Það fór svo að haustið 1978 þótti ekki forsvaranlegt að hefja
nýtt starfsár skólans og var hann lagður niður.
Það er óhætt að segja að skólastarf Kvennaskólans á Blönduósi hafi verið
Húnvetningum heilladrjúgt að mörgu leyti. Þorpið Blönduós fylltist af lífi á
haustin. Námsmeyjarnar tóku þátt í leiksýningum, stóðu fyrir skemmtunum
með leik og söng og síðast en ekki síst fengu þær ballleyfi nokkrum sinnum á
vetri. Ansi margir húnvetnskir piltar náðu sér í góðan kvenkost af
Kvennaskólanum og settust margar námsmeyjar að á Blönduósi og nærsveitum
eftir að námi lauk. Og þá ekki bara námsmeyjarnar heldur kennslukonurnar
líka: Sövik krækti í Solveigu, séra Pétur krækti í Dómhildi, Heiðar á Hæli
krækti í Kristínu og Vignir krækti í Aðalbjörgu. Eða kannski var það öfugt? Ég
veit það ekki, hitt veit ég þó að allar þessar konur komu hingað á Blönduós
vegna Kvennaskólans og þó svo hann liði undir lok voru þær komnar til að
vera.
Hið sama má segja um áhrif skólans, þeirra gætti lengi vel eftir að hann var
lagður niður og gera enn þar sem margar skólastúlkur um allt land búa enn
að því góða námi og aðbúnaði sem þær fengu á Kvennaskólanum á Blönduósi.