Húnavaka - 01.05.2013, Page 129
H Ú N A V A K A 127
Um 1960 buðust innfluttar notaðar dísildráttarvélar, aðallega Ferguson. Ég
varð mér úti um eina slíka og man að Daníel á Búrfelli keypti líka eina. Þegar
fór að reyna á vélina, kom í ljós að mótorinn í henni var orðinn nokkuð slitinn
og óþéttur svo að ég keypti nýjar slífar, stimpla og legur í hann. Ég valdi þá
leið að skipta um alla þessa hluti sjálfur og það gerði ég á hlaðinu í Litladal.
Verkið tókst vonum framar og vélin dugði meðan við bjuggum í Litladal. Að
lokum hafnaði hún hjá þeim Eiðsstaðabræðrum, Jósef og Hallgrími. Þar er
hún enn þegar þetta er skrifað og hefur verið notuð til skamms tíma.
Víða byggt
Eins og fyrr segir, var vakinn mikill framkvæmdahugur í bændum. Þeir vildu
hver um annan þveran hefjast handa við að byggja, bæði íbúðar- og
peningshús. Þar sem ég var eini lærði húsasmiðurinn í sveitinni var mikið
leitað til mín. Þetta kom sér bæði vel og illa fyrir mig, vel vegna þess að ég varð
að afla tekna því að búið var lítið til að byrja með en illa vegna þess að nóg var
að gera í Litladal. En enginn lifir á loftinu einu saman.
Hinn 29. apríl árið 1954 mældi ég fyrir íbúðarhúsi hjá Sigurði Jónssyni og
Þóreyju Daníelsdóttur á Litla-Búrfelli. Því næst var hafist handa við að grafa
fyrir grunni. Þetta hús var gert fokhelt það sama ár.
Ári seinna, hinn 27. maí, mældi ég fyrir íbúðarhúsi í Holti í Svínadal fyrir
þau hjón, Sofíu Jóhannsdóttur og Guðmund Þorsteinsson. Þetta var allstór
bygging, kjallari, hæð og ris enda var byggingartíminn að minnsta kosti þrjú ár
þótt það væri tekið í notkun nokkru fyrr.
Hinn 21. júní árið 1955 fór ég að Ásum, á Bakásum Svínavatnshreppi, til
að mæla fyrir íbúðarhúsi fyrir þau hjón, Sigurlaugu Sigurvaldadóttur og
Ingvar Ágústsson, sem þar bjuggu. Þetta var einnar hæðar hús með háu risi.
Mig minnir að tekist hafi að gera hæðina íbúðarhæfa á því sama ári.
Holt í Svínadal. Mynd: Héraðsskjalasafn.