Húnavaka - 01.05.2013, Side 148
H Ú N A V A K A 146
stórhríð - eitt hið magnaðasta foraðsveður, sem núlifandi menn minnast.
Frostið, fannmoksturinn og vindhraðinn lögðust á eitt í tröllskap sínum.
Hvorki datt mér né kennaranum í hug að leggja út í þetta veður, það hefði
verið óðs manns æði. Ég hugsaði heim. Skyldi pabba hafa tekist að ná fénu
saman í hús áður en hann skall saman? Við því fékk ég engin svör því að
enginn sími var á Vindhæli. Ég var ærið órólegur að vita ekki neitt um hagina
heima - hafði og grun um að féð mundi hafa verið látið út, þar sem veðrið var
gott fram eftir öllum degi. Ég varð nú að slá mér til rólegheita, þar sem ég var
kominn og gista næstu nótt.
Morguninn eftir var veður orðið betra, sást glóra í loft á stöku stað. Tók að
draga úr frosti nokkuð undir hádegið. Lögðum við Sigurjón af stað eftir
matinn. Gangfæri var fremur þungt. Man ég að ég gekk í fótspor kennarans
og létti það mér gönguna að miklum mun.
Ég komst heim þegar næstum aldimmt var orðið og skildu þar með
leiðir okkar kennarans. Heimkoman var fremur dapurleg. Af kindunum
120 hafði stórhríðin spennt út í sjó fjörutíu að tölu eða slegið flötum og
drepið þær. Þriðjungur fjárins var horfinn í einni svipan. Faðir minn hafði
látið féð út að venju til beitar á laugardagsmorguninn. Dreifði það sér um
haglendið vítt til sjávar. Þegar hríðin skall á, brá faðir minn fljótt við að
ná fénu heim í hús. Hann komst niður fyrir áðurnefndan Stapa og gat
hrammsað saman það fé sem hann sá þar en missti nokkuð af því út í
sortann og veðurofsann. Fé það, sem verið hafði neðan túns í flóanum,
leitaði sjálft til húsa og hímdi þar er faðir minn kom loks heim með þær
fáu skepnur sem honum hafði tekist að reka á móti ofsanum. Sjálfur var
hann nær dauða en lífi, hafði misst skinnhúfuna sína af höfðinu. Bjó hann
lengi að þessum hrakningum og sjálfur sagðist hann aldrei hafa áður lent
í þvílíku fárviðri.
Fé það, sem ekki komst til húsa, hafði nú fundist. Strax á sunnudagsmorgun-
inn höfðu foreldrar mínir hafið leit að hinu týnda fé. Fannst sumt gaddfreðið
vítt um móana og hafði ofviðrið sýnilega rotað sumt á harðfrosinni jörðinni.
Flestar kindurnar hafði þó harðviðrið hrakið fram af sjávarklettunum og
beinbrotið í fallinu en æðandi haföldurnar tekið við þeim, drekkt þeim og
hrakið upp í fjöruna. Þetta var óglæsilegur valur yfir að líta.
Lagt var af stað með hest og sleða til að hirða skrokkana, ef vera kynni að
takast mætti að koma þeim í eitthvert verð. Þá voru refabú víða og fóru
kindaskrokkarnir í maga tæfu víst flestir, því að sjálfdautt kjöt vildu hvorki við
né aðrir leggja sér til munns. Bjórarnir voru ekki einu sinni hirtir, náðust ekki
af sökum frostsins.
Oft hefur mér orðið það á að bera saman fjárskaða föður míns og Jónasar,
föður Jóhannesar skálds úr Kötlum, er skáldið lýsir svo snilldarlega í kvæðinu,
„Karl faðir minn“ en þar stendur á einum stað:
Svo rak hann sig loksins á slitrótta slóð
og slóðin lá beint út í sjóinn.