Húnavaka - 01.05.2013, Page 149
H Ú N A V A K A 147
Jónas missti helminginn af sínu fé, eftir því sem kvæðið hermir, en faðir minn
þriðjunginn. Fé beggja spennti út í sjó. Sá mun hafa verið munur þeirra að
Jónas var bláfátækur en faðir minn vel bjargálna.
Jóhannes skáld lætur þess getið í kvæði sínu að stungið hafi verið upp á því
að gefa föður sínum ær til þess að bæta honum skaðann þó að ekki yrði af því.
Slíkt kom ekki til tals er faðir minn varð fyrir hinum mikla fjárskaða. Ég
minnist þess ekki að honum væri neitt vorkennt. Skal það þó ekki sagt
Skagstrendingum til lasts. Hugsunarhátturinn var sá, að hver yrði að sjá um
sig eða hver væri sjálfum sér næstur.
Í byrjun umrædds vetrar voru foreldrar mínir á gangi niðri við sjó á
Vindhæli og var snjóföl á. Segir móðir mín þá allt í einu við föður minn: Sérðu
blóðflekkina í snjónum? Ekki kom hann auga á blóðflekki þessa en hafði orð á
að þessi sýn konu sinnar væri forboði illra tíðinda. Eftir að fjárskaðinn var
orðinn þótti sem blóðflekkirnir hefðu átt að vera fyrir kindadauðanum.
Ein kind fannst í fönn mánuði eftir þetta fárviðri. Var hún mjög aðþrengd
orðin. Hafði rifið í sig jarðveginn allt í kringum sig í snjóhúsi sínu, allt niður í
klöpp. Tókst með löngum tíma að koma henni í hold. Er ömurlegt að hugsa
sér kindur eða aðrar skepnur grafnar í fönn svo mörgum vikum skiptir og bíða
að lokum bana úr hungri og kröm. Þá eru örlögin þau að hrekjast fram af
sjávarhömrum í skammdegisbyl illskárri, þótt harðhent séu.
Næsta ár var fénu fjölgað í sama og var áður en desemberhrinan gekk yfir.
En önnur var í aðsigi og engu betri þótt hún færi hægar yfir. Hún nefndist síðar
mæðiveiki.
Haustið 1935 var föður mínum dregin kind ein með marki hans, blaðstýft
aftan hægra og sýlt og biti aftan vinstra. Var hún svört á lit, hrokkinulluð, með
lafandi eyru og vænan dindil. Kind þessa átti reyndar Jón bóndi Hannesson í
Deildartungu í Borgarfirði en faðir minn og hann áttu sama fjármark. Kindin
var falleg og varð að ráði að hún yrði tekin á fóður um veturinn og fór hún vel
að. Kind þessi var af svokölluðum karakúlstofni. Hafði þessi sauðfjárstofn
verið fluttur inn vegna þess að af honum fékkst verðmætt skinn, einkum þó af
lömbunum.
Næsta vor var Surtlu hleypt á fjall ásamt öðru fé en haustið eftir við smölun
reyndist hún haldin ókennilegri veiki, gekk upp og niður af mæði en vilsa og
froða vall fram úr vitum hennar. Við skoðun reyndist hér vera sama fjárpest á
ferð og verið hafði í fénu hjá Jóni bónda í Deildartungu og fyrst var við þann
bæ kennd en hlaut síðar nafnið mæðiveiki.
Það fór að bera á mæði í fleira fé er á leið veturinn.
Næsta vor var allt féð tekið með lögvaldi og flutt vestur á Heggstaðanes,
milli Miðfjarðar og Hrútafjarðar og haft þar í einangrun um sumarið en
slátrað um haustið. Hafði lítið borið á mæðiveiki í fénu nefnt sumar. Þótt
fébætur væru greiddar samkvæmt mati var skaðinn ærinn og hugarraunin þó
enn meiri: Að sjá nú enga kind koma af fjalli. Hann hafði átt sauðfé svo lengi
sem hann mundi eftir sér og hafði yndi af að umgangast það. Nú fannst
honum sem allt væri farið.
Mæðiveikina tókst því miður ekki að stöðva þrátt fyrir þessar aðgerðir.