Húnavaka - 01.05.2013, Qupperneq 165
H Ú N A V A K A 163
ung sjóróðra með föður sínum. Hún naut þeirrar skólakennslu sem þá var í boði í
heimasveit hennar, sem var heimakennsla í einn vetur og nokkrar vikur í skóla á
Skagaströnd áður en hún lauk fullnaðarprófi. Á ungum aldri var hún um tíma á
Blönduósi við saumanám og veturinn 1944-1945
var hún við nám í Kvennaskólanum þar. Jóhanna
fór síðan að vinna á Skaga strönd við matar gerð
þegar bygging síldarverksmiðjunnar stóð yfir. Þar
var við vinnu ungur Skagfirðingur, Sigmar
Hróbjartsson múrarameist ari. Þau felldu hugi
saman og gengu í hjónaband þann 15. maí árið
1948. Börn þeirra eru: Bergdís Ósk, f. 1947, maki
Davíð Jack, f. 1945, og eiga þau tvo syni, Gunnlaugur
Gísli, f. 1949, hann er kvæntur Steinunni
Friðriksdóttur, f. 1948 og eiga þau tvö börn og
Sigurþór Heimir, f. 1960, maki hans er Þjóðbjörg
Hjarðar Jónsdóttir, f. 1965, hann á fjögur börn.
Jóhanna og Sigmar voru við búskap, ásamt
foreldrum hennar, á Efri-Harrastöðum á árun um 1947-1955 en þá fluttu þau
til Skagastrandar. Þar vann Jóhanna, auk heimilis- og uppeldisstarfa, hin ýmsu
störf. Hún vann í frystihúsi, var kokkur á síldarbát, sá um póst- og
farþegaflutninga á milli Skagastrandar og Blönduóss og var úti bús stjóri
Kaupfélags Skagstrendinga og síðar inn kaupastjóri.
Jóhanna og Sigmar fluttu í Garðabæ árið 1968 en leiðir þeirra skildu fáum
árum seinna. Hún var síðar í sambúð með Ólafi M. Magnússyni sem lést árið
1991. Vinur og félagi Jóhönnu síðari árin var Árni Eymar Sigurbjörnsson sem
lést árið 2009.
Eftir að Jóhanna flutti suður vann hún hin ýmsu störf, mest verslunar- og
þjónustustörf. Hún var m.a. verslunarstjóri í Vogue í Hafnarfirði og vann lengi
í Bitabæ. Hún var afar dugleg til vinnu og vinnusöm. Jóhanna las mikið og
hún átti gott safn bóka. Hún var skáldmælt, orti m.a. fallegan sálm sem sung-
inn var við útför hennar. Jóhanna var mikil handverkskona, batt inn bækur,
saumaði föt og prjónaði, málaði á postulín, vann með gler, stundaði silfursmíði
og skar út.
Jóhanna lét sér afar annt um fólk, það var dýrmætt að eiga hana að vini og
hjálparhellu og hún bar sérstaka umhyggju fyrir þeim sem hallaði á. Hún tók
þátt í félagsmálum, einkum er hún bjó á Skagaströnd. Hún starfaði þar í
kvenfélaginu, verkalýðsfélaginu, ungmennafélaginu og lék með leikfélaginu.
Hún hafði yndi af hestum og naut þess að spila bridge.
Jóhanna var gamansöm og glaðlynd og henni var gefið að sjá hinar
spaugilegu hliðar lífsins. Hún var kraftmikil kona sem tókst á við lífið, gleði
þess og þraut af reisn, dugnaði og umhyggju fyrir fólki.
Útför Jóhönnu fór fram frá Garðakirkju þann 27. apríl. Jarðsett var í
Garðakirkjugarði.
Sr. Ægir Fr. Sigurgeirsson.