Húnavaka - 01.05.2013, Page 178
H Ú N A V A K A 176
þá Torfustaði í Svartárdal. Á Torfustöðum bjuggu þau í tvo áratugi eða til
ársins 1970 er þau létu jörðina í hendur Kristjáns sonar þeirra. Sjálf fluttu þau
til Sauðárkróks og áttu þar heima síðan, lengst af á Knarrarstíg 4.
Á Torfustöðum var strax tekið til hendi, byggt
íbúðarhús og stór fjárhús með grindakjallara og
stóraukið við ræktun. Bú þeirra hjóna varð aldrei
mjög stórt enda leyfði jörðin það ekki en vel með
allar skepnur farið. Jósef var harðduglegur til
allrar vinnu og sérlega ósérhlífinn. Hann fór ung-
ur að fara í göngur á Eyvindarstaðaheiði og var
fastur undanreiðarmaður meðan hann var vestan
fjalla. Á heiðum uppi og í allskonar slarki naut
Jósef sín best. Hann átti alla tíð góða hesta og lét
sér annt um þá.
En sennilega verður Jósefs lengst minnst fyrir
sögurnar og sönginn. Hann var slíkur sögumaður
að menn lögðu alltaf við hlustir, hvort heldur var
í gangnakofa eða á karlakórsæfingum. Á Eiríksstöðum var mikil sönghefð en
Sigfús, faðir þeirra Eiríksstaðabræðra, var einn af stofnendum Karlakórs Ból-
staðarhlíðarhrepps ásamt Guðmundi, syni sínum. Yngri bræðurnir, Pétur og
Jósef, komu svo til liðs við kórinn þegar þeir höfðu aldur til. Þeir bræður allir
urðu máttarstólpar kórsins ásamt þeim Finns tungubræðrum. Jósef fór
snemma að syngja einsöng með kórnum og er hin mikla og djúpa bassarödd
hans eftirminnileg mörgum er á hana hlýddu. Leik ara hæfileika hafði Jósef
einnig ótvíræða og lék t.d. Skrifta-Hans þegar kórinn setti hinn vinsæla
söngleik, Ævintýri á gönguför, á svið undir stjórn séra Jóns Kr. Ísfelds.
Þau Jósef og Fjóla eignuðust tvö börn, Kristján, f. 1947, kvæntur Önnu
Kristinsdóttur og eiga þau fjögur börn og Ingibjörg, f. 1944, maki hennar er
Ævar Þorsteinsson og eiga þau fjögur börn.
Jósef stundaði vinnu við sláturhús SAH um nokkurt skeið. Sömu vinnu
stundaði hann hjá Kaupfélagi Skagfirðinga eftir að þau fluttu á Krókinn. Jósef
var vinsæll og vinmargur. Þótt hann virtist stundum hrjúfur á yfirborði vissu
þeir sem til þekktu að undir sló hlýtt hjarta. Þau hjónin áttu gott líf á Króknum
og Jósef naut sín vel með mönnum sem áttu hesta. Síðasta árið, er heilsan tók
að bila, fluttu þau hjónin inn á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks.
Útför Jósefs fór fram frá Sauðárkrókskirkju laugardaginn 5. janúar 2013.
Jarðsett var í Sauðárkrókskirkjugarði.
Sigurjón Guðmundsson.