Lögmannablaðið - 01.12.2003, Blaðsíða 30

Lögmannablaðið - 01.12.2003, Blaðsíða 30
30 inda. Fyrstu verðbréfin voru síðan skráð í við- skiptakerfi Verðbréfaþings þann 8. nóvember 1985 og voru það flestir útistandandi flokkar spariskírteina ríkissjóðs. Hlutabréf voru síðan fyrst samþykkt til skráningar 15. október 1990 og var þar um að ræða hlutabréf Olíverzlunar Íslands hf. (Olís) og Fjárfestingarfélags Íslands hf. Við- skipti í kauphöll fóru hægt af stað en frá árunum 1990 til 2003 hefur velta með verðbréf í kauphöll aukist úr rúmum 20 milljörðum króna á ári í u.þ.b. 450 milljarða króna fyrstu tíu mánuði ársins 2003, og skal þá jafnframt tekið fram að desember hefur iðulega verið veltumeiri en aðrir mánuðir ársins. Samhliða þróun verðbréfamarkaðar, sem hefur næstum þrjátíufaldast á rösklega 10 árum, hefur orðið veruleg breyting á lagaumhverfinu og má með sanni segja að myndarlega hafi verið að verki staðið í þeim efnum, þótt því verði fráleitt haldið fram að löggjöf á verðbréfamarkaði sé fullkomin frekar en önnur mannanna verk. Lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti hafa að geyma hegðunarreglur um réttindi og skyldur í verðbréfaviðskiptum en fjallað er um stofnanaþátt aðila á verðbréfa- og fjármálamarkaði í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Með núgildandi lögum um verðbréfaviðskipti eru innleidd ákvæði viðeigandi tilskipana á sviði fjármálaþjónustu, auk þess sem tekið er mið af því hvernig eldri lög- gjöf hefur reynst og hvernig verðbréfamarkaður hér á landi hefur þróast. Þannig eru í lögunum nokkuð ítarlegar reglur um skyldur fjármálafyrirtækja, sem m.a. kveða á um almenna upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja gagnvart viðskiptavinum og skyldu þeirra til óhlutdrægni og jafnræðis, aðskilnað einstakra starfssviða og reglur um viðskipti verðbréfafyrir- tækja fyrir eigin reikning. Þá eru í lögunum ítar- legar reglur um útboð verðbréfa þar sem m.a. er kveðið á um að almenn útboð verðbréfa séu háð því að útboðslýsing sé gefin út. Í útboðslýsingu eiga að koma fram allar þær upplýsingar sem með hliðsjón af eðli útgefandans og verðbréfanna eru nauðsynlegar fjárfestum til þess að þeir geti á grundvelli þekkingar sinnar metið verðmæti verð- bréfa sem boðin eru til sölu. Voru ákvæði þessi m.a. sett til að sporna við viðskiptum almennings með óskráð verðbréf, eða á „gráum markaði“. Segja má að nokkur misbrestur hafi verið á því, sérstaklega á árunum 1998 til 2000 er almenn- ingur keypti hlutabréf í fyrirtækjum þrátt fyrir að litlar upplýsingar lægju fyrir um rekstur þeirra eða verðmæti að öðru leyti. „Gráir markaðir“ eru and- stæða skipulegra verðbréfamarkaða þar sem skylt er að tilkynna allar markverðar upplýsingar um útgefendur sem skráð hafa verðbréf á skipulegum mörkuðum. Einnig eru í lögunum reglur um flöggun vegna breytinga á eignarhaldi verulegs eignarhluta verðbréfa sem skráð eru á skipulegum verðbréfmörkuðum og ítarlegar reglur um mark- aðsmisnotkun og innherjaviðskipti sem tekið hafa nokkrum breytingum frá því ákvæði þar um voru fyrst lögfest, þannig að þau hafa verið hert og gerð skýrari en áður var. Einnig eru nú í lögum um verðbréfaviðskipti ítarleg ákvæði um viðurlög við brotum á ákvæðum laganna, þar sem m.a. eru nýmæli um heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir við nánar tilgreindum brotum. Þannig má segja að komið sé nokkuð heildstæður rammi um verðbréfaviðskipti sem, eins og áður segir, hefur tekið nokkrum breyt- ingum sl. ár til samræmis við aukin umsvif verð- bréfamarkaðar. Ætla má að þessi lagarammi verði í stöðugri þróun bæði vegna sífelldrar endurskoð- unar á reglum Evrópusambandsins á sviði fjár- málaþjónustu og eins vegna breytinga á markaðs- umhverfinu hér á landi sem fylgst er náið með af bæði markaðs- og eftirlitsaðilum. Hafa þá ekki verið nefndar breytingar á lögum um verðbréfa- sjóði og fjárfestingarsjóði og reglum um fjármála- fyrirtæki, þar sem m.a. er aukið við hlutverk Fjár- málaeftirlitsins og því veittar víðtækari heimildir en áður. Allar fullyrðingar um að það skorti á lagareglur um verðbréfaviðskipti hér á landi eru því algerlega úr lausu lofti gripnar og hið sama á við um gagnrýni á skort á valdheimildum Fjár- málaeftirlitsins eða meint aðgerðarleysi þess. Ósanngjörn gagnrýni á aðgerðarleysi Fjármálaeft- irlitsins má að verulegu leyti skýra með því að um meðferð mála fyrir eftirlitinu gildir, eðli máls samkvæmt, ströng þagnarskylda sem starfsmenn eftirlitsins hafa virt. Það sem helst má gagnrýna við núverandi löggjöf er að reglur um yfirtöku- skyldu eru ófullkomnar, eins og bent hefur verið á í tengslum við nýlegar yfirtökur og afskráningar félaga sem skráð hafa verið í Kauphöll Íslands. 4 / 2 0 0 3

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.