Lögmannablaðið - 01.11.2008, Blaðsíða 26

Lögmannablaðið - 01.11.2008, Blaðsíða 26
26 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 3 / 2008 Sjónarmið um réttaröryggi og neytendavernd eru helstu ástæður þess að lögmenn hafa einkarétt ti l málflutningsstarfa hér á landi. Þó vissulega séu rök fyrir því að fólk hafi frelsi til að ákveða hvern það velur til að flytja mál fyrir sína hönd þá virðist nokkuð almenn sátt um þennan einkarétt lögmanna. Sú þróun er auk þess í takt við þá þróun sem orðið hefur hjá öðrum starfsstéttum með lögverndun starfsheita og löggildingu réttinda. Þá má segja að þessi höft á frelsi manna til að velja sér málflutningsmann séu minni eftir því sem lögmenn verða fleiri. Fjórir háskólar geta nú útskrifað lögfræðinga hér á landi og því ætti enginn skortur að verða á lögmönnum á næstu árum og áratugum. Málið vandast hins vegar þegar litið er til Hæstaréttar þar sem töluverðar skorður eru við því að héraðsdómslögmenn geti flutt mál fyrir Hæstarétti. Hver er hæfastur? Ekki verður séð að réttaröryggi eða neytendum stafi nokkur hætta af því að héraðsdómslögmenn flytji mál fyrir Hæstarétti. Þvert á móti má segja að sá lögmaður sem komið hefur lengst að málinu, unnið það í heild sinni fyrir héraðsdómi og komið fram fyrir hönd umbjóðanda síns jafnvel um árabil, sé hæfastur til að flytja viðkomandi mál fyrir Hæstarétti. Hafi lögmaður öðlast réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi má telja fullvíst að hann sé hæfur til að flytja mál fyrir Hæstarétti. Alltént má fullyrða að þau skilyrði sem sett eru til að öðlast réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður tryggi ekki að lögmaður verði betri til að flytja mál fyrir Hæstarétti en hver annar héraðsdómslögmaður. Mismunandi reglur landa Það er nokkuð misjafnt hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar. Í Bandaríkjunum er einungis gerð krafa um að lögmaður hafi haft réttindi til að flytja mál í einhverju fylki í að minnsta kosti þrjú ár. Önnur skilyrði eru formlegs eðlis, svo sem að leggja inn umsókn og greiða þóknun. Í Danmörku þarf lögmaður að hafa starfað í 5 ár fyrir landsrétti og fá yfirlýsingu frá viðkomandi rétti um að hann hafi þekkingu í réttarfari áður en hann getur flutt mál fyrir Hæstarétti. Val almennings Það á að sjálfsögðu að vera val umbjóðandans, almennings í landinu, hvern hann ræður til að flytja mál sitt. Það er réttaröryggið sem málið snýst um. Það er meira en næg trygging fyrir réttarríkið að aðilar dómsmála hafi ekki val um það almennt hver flytur mál þeirra, þar sem lögmenn hafa einkarétt til málflutnings, þó takmarkanirnar séu ekki enn meiri. Katrín Helga Hallgrímsdóttir, hdl. Er þörf á aðgreiningu málflutningsréttinda?

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.