Lögmannablaðið - 01.12.2008, Blaðsíða 30

Lögmannablaðið - 01.12.2008, Blaðsíða 30
30 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 4 / 2008 Þann 21. nóvember 2008 stóð Félag kvenna í lögmennsku ásamt Félagi kvenna í endur­ skoðun fyrir námskeiði sem bar yfirskriftina „þjálfun í framsækni fyrir þig og fyrirtæki þitt“. Umsjón með námskeiðinu hafði Sigríður Arnardóttir, sem margir þekkja betur undir nafninu Sirrý, en hún hefur áratuga reynslu af því að starfa við fjölmiðla. Sirrý starfar nú sem ráðgjafi í almannatengslum. Henni til aðstoðar var Dúi J. Land­ mark kvikmyndatökumaður. Nám­ skeiðið var haldið í Turninum við Smáratorg í Kópavogi, nánar tiltekið á 19. hæð en þar fengu þátttakendur í kaupbæti frábært útsýni og ljóm­ andi góðan mat. Gott samband myndaðist með þátt­ takendum sem höfðu mismikla reynslu af því að koma fram í fjöl­ miðlum. Sirrý fór með lifandi og skemmtilegum hætti í gegnum það hvernig hægt er að ná athygli áheyr­ enda, hver sé lykillinn að góðri tækifærisræðu, tækni við örugga sviðsframkomu og samskipti við fjölmiðla svo eitthvað sé nefnt. Þátttakendur fengu að spreyta sig á því að koma fram en afraksturinn var síðan tekinn upp á myndband. Sirrý gerði gott betur en að leiðbeina með tæknileg atriði, hún hafði margt annað til málanna leggja og sýndi með skemmtilegum hætti hvað jákvæðni, einlægni og ekki síst bros skiptir miklu máli í mannlegum samskiptum. Minnti hún m.a. á hvað það getur breytt miklu að kunna að þakka fyrir allt það góða sem við eigum. Almenn ánægja var meðal þátt­ takenda með fyrir komulag nám­ skeiðsins og alla umgjörð. Því lauk með hátíðlegu borðhaldi á 19. hæð þar sem þátttakendur skiptust á að taka til máls og láta ljós sitt skína. Var það samróma álit allra að vel hafi tekist til. Þátttakendur fóru heim af námskeiðinu ríkari en þeir komu og þá var tilganginum náð. Þórdís Bjarnadóttir hdl. og Margrét Gunnlaugsdóttir hdl. Framsækni og framkoma Sigríður Arnardóttir. Þann 1. janúar n.k. taka gildi sérstök innheimtulög nr. nr. 95/2008, sem ætlað er að gilda um innheimtu gjaldfallinna peningakrafna, annarra en skatta og opinberra gjalda eða krafna sem innheimtar eru á grundvelli réttarfarslaga. Á sama tíma tekur gildi reglugerð þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd laganna og hámark innheimtukostnaðar. Laganefnd Lögmannafélagsins skilaði ítarlegri umsögn um innheimtulagafrumvarpið, sem hægt er að lesa á heimasíðu félagsins, en félaginu var hins vegar ekki gefinn kostur á því að tjá sig um inntak reglu­ gerðarinnar meðan hún var í vinnslu í viðskipta­ ráðuneytinu þrátt fyrir að ítrekað væri eftir því gengið. Ljóst er að nýju lögin munu hafa umtalsverð áhrif á vinnu við frum­ og milliinnheimtu en ekki á formlega lögfræðiinnheimtu þar sem hún er undanskilin í lögunum. Samkvæmt 15. gr. laganna annast Fjármálaeftirlitið almennt eftirlit með framkvæmd þeirra en úrskurðar­ nefnd lögmanna fer með úrskurðarvald gagnvart lögmönnum á grundvelli laga um lögmenn. Eftirlitsaðilum er gert að samræma verklagsreglur sínar en félagið vinnur nú að þessum reglum í samráði við Fjármálaeftirlitið. ný innheimtulög Félag kvenna í lögmennsku Af vettvangi félagsins

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.