Vísbending - 21.12.2015, Side 17
17
Neðanjarðarhugsunarháttur
Svona neðanjarðarhugsunarháttur var þekktur meðal gömlu
kommúnistanna. Fólk af kynslóð foreldra minna fór til náms austur
til Moskvu undir dulnefni. Ótti við valdastéttina var útbreiddur á
Íslandi og allar götur til okkar daga. Einar Olgeirsson talaði oft um
að hitt eða þetta þyrfti að geyma vel og fáir mættu sjá, af því að
hann óttaðist andstæðingana og að þeir kæmu höggi á okkar fólk,
rækju fólk úr vinnu eða neituðu því um vinnu og svo framvegis. Það
var eðlilegt miðað við það umsátursástand sem ríkti á kaldastríðs-
tímanum.
Morgunblaðið og Styrmir fengu upplýsingar um það sem var að
gerast í Alþýðubandalaginu meðan átökin við Hannibal voru hvað
hörðust og hann skrifar greinar sem blaðamaður um það sem var að
gerast. Við töldum þá að hann hefði þetta innan úr fjölskyldunni, frá
tengdafólki sínu, en hann hefur neitað því.
Svo eftir að þessum kafla var lokið og Hannibal farinn úr Alþýðu-
bandalaginu og Ólafur Ragnar fer að breiða út átakakenningu sína
um innanflokksmál Alþýðubandalagsins þá fara mál aftur að leka
inn í Morgunblaðið. Stundum birtust í blaðinu ótrúlega nákvæmar
upplýsingar um það sem hafði verið rætt á fámennum fundum
í útgáfufélagi Þjóðviljans. Fyrir vikið held ég því fram að Styrmir
Gunnarsson hafi verið einn af mestu áhrifamönnum Alþýðubanda-
lagsins um árabil og stend við það. Þar var fólk sem nýtti sér tengslin
við Styrmi til þess að slást við okkur og þannig voru búnar til
kenningar um flokkseigendafélag og bandamenn Einars Olgeirssonar
og Moskvu. Áður en við varð litið, vorum við orðnir hluti af
einhverjum veruleika með orðaleppum sem íhaldið bjó til og notaði
í sínu stríði. Það var sárt að sjá félaga nota slíka umræðu til að koma
höggi á okkur.
Ameríska heimsveldið gerandi
í íslenskum stjórnmálum
Hér var háð stríð þar sem ameríska heimsveldið var gerandi í
íslenskum stjórnmálum með óbeinum og beinum hætti. Þeir reyndu
að halda því fram að við Alþýðubandalagsmenn værum með peninga
frá Rússunum sem var náttúrulega lýgi og hreint kjaftæði. Ef einhver
fékk pening frá Rússlandi voru það Bifreiðar og landbúnaðarvélar
sem voru einn af máttarstólpum fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins.
Völd Sjálfstæðisflokksins voru alls staðar og líka þarna. Þegar ég
varð viðskiptaráðherra 34 ára gamall skrifaði ég grein um átökin
og árásina á lýðræðið í Tékkóslóvakíu 1968. Þá komu til mín
forustumenn í atvinnurekendasamtökunum, sem jafnframt voru í
Sjálfstæðisflokknum, og ráðlögðu barninu í fullri vinsemd að skrifa
ekki svona. Þeir voru að gæta hagsmuna þeirra fyrirtækja sem voru í
viðskiptum við Sovétríkin.
Margir töldu að þróunin í Tékkóslóvakíu myndi á endanum leiða
til sósíalísks ríkis þar sem lýðræði væri í raun við völd. Þegar sú
hreyfing var á bak aftur brotin með vopnavaldi urðu það fyrir mörgum
ekki aðeins vonbrigði heldur ákveðin kaflaskil. Þaðan í frá var ekki
hægt að gera ráð fyrir því að Sovétríkin eða neitt á þeirra vegum væru
liðsmenn í baráttunni fyrir sósíalisma í heiminum.
Fram að því héldu margir að það mætti bæta þetta þjóðskipulag en
sú von brást árið 1968.“
Heimdallur stal ritgerðunum og
frumkvæðinu frá okkur
Nú liggur fyrir að margir sem fóru til náms austur fyrir tjald sáu með
eigin augum hve slæmt ástandið var. Samt gengu þeir ekki fram fyrir
skjöldu þegar heim kom og vöruðu við þessari þróun. Heldur þú
að menn hafi í sumum tilvikum verið klemmdir milli tryggðar við
flokkshreyfinguna heima og þess sem þeir höfðu upplifað á eigin
skinni og þess vegna þagað í þágu flokksins?
„Ég held að þetta hafi verið þannig að menn hafi viljað að
hreyfingin leysti þetta með þeim. Ég held að menn hafi frekar viljað
að flokkurinn breytti sínum áherslum og stefnumálum frekar en þeir
persónulega. Mér virðist sem að það hafi að nokkru leyti tekist með
því að slíta tryggðabönd við Sovétríkin, en á sama tíma halda í þá von
sem menn sáu í þessari stjórnmálastefnu. Allt gerðist þetta í raun og
veru 1968 og gerði sumum þessara manna, og okkur líka, kleift að
starfa fyrir Alþýðubandalagið.
Sín á milli skrifuðu margir námsmanna austan við tjald algerlega
frábærar greinar og gagnrýni á þjóðskipulagið sem við blasti. Þessum
bréfum og skýrslum lét Heimdallur stela og gaf út á bók sem hét
Rauða bókin og er hið merkasta plagg og analýsa á ástandinu fyrir
austan. Það er haft eftir Einari Olgeirssyni að hann vildi að þessum
skýrslum yrði brennt og það var notað í auglýsingum. Ég held að
Einari hafi fallið þyngra sú staðreynd að þessi bréf komust í hendur
íhaldsins en sú gagnrýni sem í þeim fólst.“
Hefði ekki verið betra að þessi mál hefðu komið upp á yfirborðið
með öðrum hætti en sem skotfæri í þessum skotgrafahernaði kalda
stríðsins?
„Sennilega hefði það verið betra. En svona er þetta stundum:
Heimdallur stal ritgerðunum og frumkvæðinu frá okkur!
Kerfið hrundi innan frá
Horfandi yfir þetta svið er ljóst: Sovétríkin og þeirra kerfi hrundi
aðallega af því að stefna þeirra í efnahagsmálum gekk ekki upp.
Allsherjarmiðstýring leiðir til hruns. Þetta hafa þeir séð í Kína þar
sem komið hefur verið á eins konar kapítalísku flokkseinræði þar sem
flokkurinn ræður öllu, en efnahagslífið hefur þróast á kapítalískum
forsendum. Undir það síðasta var austur-þýska stjórnin svo illa
haldin efnahagslega að hún bauðst til að rífa niður múrinn gegn
lánveitingum að vestan. Kerfið var hrunið innan frá. En hugsjónin um
betra þjóðfélag sósíalisma, jafnréttis, lýðræðis og sjálfbærrar stefnu í
efnahagsmálum, grænt þjóðfélag, er enn á sínum stað og verður alltaf.
Og baráttan heldur áfram, því stéttabaráttan er í fullu gildi þar sem eru
átök þeirra ríku og þeirra fátæku. Og svo ég leyfi mér nútíð í þessu
fortíðarsamtali: Jöfnuður fer minnkandi – þar liggja ástæður þess að
það er ófriðvænlegra í heiminum núna en lengi áður. Barátta fyrir
jöfnuði er því barátta fyrir friði.“
Ólafur Ragnar bjó til átakakenningu sína um innanflokksmál Alþýðu-
bandalagsins og þá fara mál aftur að leka inn í Morgunblaðið.
V